Heilun með eiturefnum úr froskum
Tveir heilarar í Ástralíu hafa verið sviptir starfsleyfi tímabundið fyrir að nota eiturefni sem unnið er úr eitruðum froskum frá Suður-Ameríku við meðferð á sjúklingum í Melbourne.
Heilunarþjónustan sem um ræðir kallast Two Wolves – One Body eða Tveir úlfar – Einn líkami og segist sérhæfa sig í óhefðbundnum lækningum sem eiga sér aldagamla hefð og meðal annars byggja á þekkingu suður-amerískra töfralækna.
Eiturefnin sem finnast í froskunum, sem kallast Kambo, eru margs konar og geta meðal annars valdið skjálfta, bólgum, yfirliði, uppköstum og niðurgangi. Fylgjendur notkunar á froskaeitrinu segja það allra meina bót.
Efnin sem um ræðir eru varnarefni froskanna sem er safnað með því að skafa það af baki froska sem hafðir eru undir miklu álagi til að framleiða sem mest af því.