Hestanafnavísur á hársnyrtistofu á Selfossi
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Á hársnyrtistofunni Österby við Austurveginn á Selfossi er stórt spjald á stofunni með vísum sem samsettar eru af hestanöfnum.
„Nöfnin vekja alltaf mikla athygli á meðan viðskiptavinir sitja í stólnum og spinnast oft skemmtilegar umræður um nöfnin á hestunum, þetta gefur lífinu lit og er skemmtilegt á stofunni,“ segir eigandi stofunnar, Björgvin Ragnar Emilsson.
Guðni B. Guðnason, fyrrverandi starfsmaður Kaupfélags Árnesinga, tók nöfnin saman og setti þau upp á þennan skemmtilega hátt.
Hestar
Glaumur, Ímir Gyllir, Hlýr
Gellir, Þrymur, Ljómi,
Hjörvi, Kjarri, Hrímnir, Ýr,
Hvati, Þjasi, Sómi.
Gauti Hringur, Glymur, Blær,
Gneisti, Dofri, Rökkvi,
Loki, Váli, Lotti, Snær,
Lokkur, Roði, Nökkvi.
Álmur, Mispill, Ölur, Reyr,
Elri, Burkni, Hlynur,
Heggur, Sópur, Hjálmur, Eir
Hnoðri, Drapi, Þinur.
Víðir, Smári, Vönndur, Gnýr,
Vingull, Toppur, Kvistur,
Askur, Laukur, Einir, Týr,
Yllir, Spori, Þristur.
Kain, Hebron, Kóri, Skjór,
Kenan, Jari, Sídon,
Enos, Leví, Abel, Þór,
Aron, Jafet, Gídon.
Nói, Babel, Falur, Frár,
Faró, Þytur, Starri,
Garpur, Máni, Grani, Skjár,
Gammur, Munninn, Harri.
Merar
Auðna, Telma, Íma, Gná,
Árna, Gnepja, Hála,
Hæra, Ólga, Bryðja, Brá,
Bára, Drífa, Fála.
Gnissa, Herkja, Gríma, Sjöfn,
Geitla, Ysja, Ekla,
Snotra, Ketla, Snekkja, Dröfn,
Sóta, Þrúður, Hekla.
Flétta, Selja, Fífa, Lind,
Fjóla, Glitbrá, Smæra,
Gljárós, Selja, Gullbrá, Rind,
Gullrós, Bjalla, Hæra.
Vordís, Sóley, Vínrós, Þöll,
Viðja, Bergnál, Mura,
Blæösp, Tinna, Bjalla, Mjöll,
Brana, Lilja, Fura.
Lena, Fluga, Lotta, Blíð,
Ljóska, Þruma, Gola,
Bela, Hugljúf, Þerna, Þýð,
Þota, Gjóska, Kola.
Lóa, Vepja, Rjúpa, Rönd,
Rita, Assa, Kría,
Álka, Teista, Ugla, Önd,
Erla, Svala, Bría.