Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Svefnskálar frá Búrfellsvirkjun voru fluttir á Akranes og komið þar fyrir. Mikil vinna er að innrétta rannsóknastofu með öllum þeim búnaði sem til þarf til efnagreininga.
Svefnskálar frá Búrfellsvirkjun voru fluttir á Akranes og komið þar fyrir. Mikil vinna er að innrétta rannsóknastofu með öllum þeim búnaði sem til þarf til efnagreininga.
Mynd / Úr einkasafni
Fréttir 6. ágúst 2020

Heyefna- og jarðvegsgreiningar flytjast frá Hvanneyri til Akraness

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Fyrirtækið Efnagreining tekur senn til starfa á Akranesi. Það hefur frá stofnun þess, 2015, verið starf­andi á Hvanneyri en félagið býður upp á efnagreiningar og mælingar af ýmsu tagi fyrir bændur, fyrirtæki og stofnanir. Eig­endur þess eru hjónin Elísabet Axelsdóttir búfræðingur, sem er fram­­­kvæmdastjóri og Arngrímur Thorlacius, efnagreiningar­sér­fræðingur og dósent í efnafræði við Land­búnaðarháskólann. Efna­­grein­ing var til húsa í gömlu Nauta­­stöðinni á Hvanneyri. Leigu­samningi var sagt upp vorið 2018.
 
Elísabet starfaði á rannsóknastofu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri um 13 ára skeið. Skólinn lokaði henni um áramótin 2014–15 og hætti með þjónustuefnagreiningar fyrir bændur. Elísabetu bauðst annað starf hjá stofnuninni en hugur hennar stóð til þess að halda áfram á sömu braut. Í kjölfarið óskuðu þau Elísabet og Arn­grímur eftir að fá að reka eigin stofu í rannsóknastofu skólans og bentu á að sá háttur væri við lýði víða um heim, þ.e. að einstaklingar reki eigin stofur á vísindagörðum í tengslum við háskóla. Hluti yfirstjórnar skólans setti sig að sögn Elísabetar upp á móti hugmyndinni. 
 
Fengu inni í gömlu Nautastöðinni
 
Elísabet og Arngrímur hugleiddu kaup á gámahúsnæði frá Kína þegar Landbúnaðarháskólinn kallaði Elísabetu á fund og bauð henni húsnæði í gömlu Nautastöðinni á Hvanneyri, sem var í eigu Bænda­samtaka Íslands, en leigusamningur um húsnæðið var í gildi milli BÍ og LbhÍ. Samningurinn var að sögn kaupsamningur sem átti á endanum að leiða til þess að skólinn eignaðist húsnæðið. Elísabet kveðst hafa haft efasemdir um þetta fyrirkomulag og hvort leggja ætti út í kostnaðarsamar breytingar til að koma starfseminni af stað. Eftir að aðilar bæði frá Bændasamtökunum og Landbúnaðarháskólanum höfðu sagt henni að ekkert væri að óttast varð þó úr að þau tóku boðinu. 
 
Í ársbyrjun 2015 fóru þau til Sjanghæ og keyptu tæki og innréttingar og á meðan beðið var eftir þeim var unnið að endurbótum á húsnæðinu og það innréttað. „Við lögðum allt undir og margir Hvanneyringar, ættingjar og vinir lögðu okkur lið, við auglýstum stundum vinnuhelgar og iðulega mætti fólk og hjálpaði okkur við þetta verkefni,“ segir Elísabet. Hún fékk stærsta styrkinn frá Atvinnumálum kvenna árið 2015, Framleiðnisjóður landbúnaðarins styrkti framkvæmdirnar á húsnæði og þá bárust fleiri mikilvægir styrkir. Byggðastofnun lánaði fé til tækjakaupa og Landsbankinn fyrir breyt­ingum á húsnæði. 
 
Staðráðin í að ná heysýnunum heim
 
Elísabet segir að síðustu árin sem LbhÍ hafi boðið þjónustugreiningar fyrir bændur hafi kúabændur í stórum stíl snúið sér til rannsóknastofu í Hollandi með sín heysýni. Skólinn hafi lítið gert til að mæta kröfum nútímans þegar kom að greiningum, m.a. voru selenmælingar ekki í boði en þær fengust ytra. „Við vorum frá upphafi staðráðin í að ná heysýnum aftur heim og það tókst að mestu haustið 2018, en þá var lokið við að tengja okkar gagnagrunn við NorFor, Samnorræna fóðurmatskerfið. Örfáir bændur voru enn að senda heysýni til greiningar í útlöndum í fyrrahaust, 2019. Það má í raun segja að heyefnagreiningar fyrir bændur hafi verið ástæðan fyrir því að við ákváðum að ráðast í að stofna fyrirtækið fyrir fimm árum,“ segir Elísabet. 
 
Björk Sigurjónsdóttir að vigta sýni fyrir jarðvegsmælingar.
 
Eru í vottunarferli skv ISO 9000 staðli
 
Rúmlega 70% af tekjum fyrirtækisins koma inn síðustu fjóra mánuði ársins en þá er törn við greiningar á hey- og jarðvegssýni. Síðasta haust störfuðu 8 manneskjur í hlutastarfi hjá fyrirtækinu, flestir nemendur LbhÍ. Allan ársins hring sinnir félagið ýmiss konar mælingum fyrir stofnanir og fyrirtæki og er mest um orkuefna- og steinefnamælingar. Þá eru örverugreiningar einnig í boði en í þeim greiningum er mikið af hraðvirkum prófefnum. Elísabet segir að tækninni fleygi ört fram og Efnagreining sé vel tækjum búið. „Við erum í vottunarferli samkvæmt ISO 9000 staðli og við vonumst til að ná að jafna tekjurnar meira yfir árið og ná til okkar í meira mæli sýnum frá matvælaframleiðendum og aðilum í fæðubótargeiranum. Nú er þróunarsetur á Akranesi í uppbyggingu og það hljómar mjög spennandi.“
 
Blaut tuska í andlitið
 
Leigusamningi við Efnagreiningu var sagt upp vorið 2018 og  „það var eins og að fá blauta tusku í andlitið,“ segir Elísabet. Landbúnaðarháskólinn hafði þá sagt upp sínum leigusamn­ingi við Bænda­samtökin. „Ég fór í miklu uppnámi á fund með þáverandi rektor sem virtist koma nokkuð á óvart allt það samstarf sem er milli LbhÍ og Efnagreiningar. Eftir marga leynifundi var niðurstaðan að háskólaráð vildi  að við myndum flytja rannsóknastofuna inn á rannsókna­stofu LbhÍ. Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta,“ segir Elísabet. Enn var í yfirstjórn skólans manneskja sem hafði á sínum tíma staðið gegn því að þau færu með sína starfsemi þar inn. „Svo ég tjáði rektornum að það væri of mikil áhætta,“ segir hún. „Það eru flestir furðu lostnir yfir því að við séum á förum frá Hvanneyri og þykir sorglegt að skólinn hafi ekki beitt sér fyrir því að halda fyrirtækinu í gömlu Nautastöðinni.“ 
 
Elísabet segir að Bændasamtökin hafi gert þeim ljóst við samningsslitin að þeir ætluðu að selja gömlu Nautastöðina. Fyrir ári var gerður leigusamningur við Efnagreiningu til 1 árs sem framlengdur var um 6 mánuði í senn með 3 mánaða uppsagnarfresti og segir Elísabet að ekki sé hægt að reka fyrirtækið við slík skilyrði. Ógerlegt sé að flytja starfsemina nema með mun lengri fyrirvara. Þau Elísabet og Arngrímur buðu í húsnæðið upphæð sem ekki var langt frá fasteignamati, en of mikið bar í milli þeirra og Bændasamtakanna þannig að ekkert varð úr kaupum.
 
Heysýni frá bændum í sýrusuðu.
 
Óskuðu eftir lóð undir starfsemina og leist best á Akranes
 
Á þessum tíma bauðst til kaups hluti af svefnskálum sem stóðu við Búrfellsvirkjun. Elísabet sendi út bréf til Borgarbyggðar og óskaði eftir lóð fyrir 100 fermetra hús og um það bil 500 fermetra lóð.  Tilboð frá Borgarbyggð kom eftir 13 vikur sem var alltof seint.  Hún sendi sams konar bréf til fleiri sveitarfélaga á suðvesturhorni landsins, m.a. Akranes, og þar á bæ stóð ekki á svörum. „Þeir sannfærðu mig um að Akranes væri besti kosturinn,“ segir hún.  Hún segir flest hafa staðist og mikill vilji til að gera eins vel og kostur er. 
 
Unnið hefur verið við að setja húsin upp undanfarnar vikur og framkvæmdir gengið vel en Elísabet segir að mikil vinna sé við að koma rannsóknastofu upp. Að gera slíkt tvisvar yfir 5 ára tímabil sé hálfgerð bilun.
 
Félagið skilaði einhverjum hagnaði á liðnu ári sem gerir kleift að byggja starfsemina upp á nýjum stað. Helsta ástæða þess er að Byggðastofnun lengdi á liðnu ári á láni til fyrirtækisins úr 5 árum í 10 og segir Elísabet það skipta sköpum fyrir reksturinn. 
 
„Við erum mjög bjartsýn,“ segir Elísabet og telur að ákveðið hagræði sé af því að starfsemin sé nær höfuðborginni. „Við yfirgefum Hvanneyri með söknuði, en hlökkum líka til að flytja á Skagann og takast þar á við gömul og ný verkefni á nýjum stað.“ 
 
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...