Hótelkeðja ræktar matvæli á húsþaki í miðborg Oslóar
Höfundur: Erla H. Gunnarsdóttir
Stærsta hótel Clarion-keðjunnar á Norðurlöndunum var opnað 1. mars síðastliðinn á besta stað í Osló í Noregi með rúmlega 800 herbergi. Það sem hefur einna helst vakið athygli er sú nýbreytni að á þaki hótelsins verður ræktað grænmeti og kryddjurtir ásamt ávöxtum fyrir dvalargesti hótelsins.
Það er bæjarbóndi Oslóarborgar, Andreas Capjon, sem sér um garðinn á þakinu á 13. hæð hótelsins sem þjónar eldhúsi hótelsins. Sænski stjörnukokkurinn Marcus Samuelsson, sem meðal annars hefur unnið á frægum veitingastöðum eins og Aquavit og Red Rooster í New York og er uppáhaldskokkur Barack Obama vel að merkja, vinnur verkefnið í samstarfi við bæjarbóndann.

Andreas hefur unnið ýmsar tilraunir áður en sjálf ræktunin á þakinu hófst, meðal annars með að rækta í rigningarvatni og vikurmold. Einnig hefur Andreas kannað hvort hann geti notað matarafganga sem áburð á það sem ræktað er. Markmiðið er að matarafgangar geti gagnast fyrir veitingastað hótelsins sem er á efstu hæð. Nú er verkefnið komið vel af stað og lofar góðu þar sem gestir hótelsins fá hluta af næringu sinni með matvælum sem ferðast um afar stuttan veg. Ef vel gengur í sumar mun hótelkeðjan einnig þróa hugmyndina á öðrum hótelum sem hafa slíka möguleika.