Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Jón Örn Ólafsson, bóndi á Nýjabæ, heldur á arfhreinni Angus-kvígu.
Jón Örn Ólafsson, bóndi á Nýjabæ, heldur á arfhreinni Angus-kvígu.
Mynd / Edda Ævarsdóttir
Fréttir 29. janúar 2024

Hraðvöxnustu nautin í Nýjabæ

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Mikill daglegur vöxtur var á ungneytum í Nýjabæ undir Eyjafjöllum í fyrra samkvæmt niðurstöðum skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni.

Á listanum yfir tíu hraðvöxnustu nautin á landinu voru sex frá Nýjabæ. Þaðan kom naut 1382, undan Erpi, sem bar höfuð og herðar yfir önnur með 795,5 gramma vöxt á dag. Þungi þess var 412,2 kílógrömm þegar því var slátrað 16,4 mánaða gömlu. Jón Örn Ólafsson og Edda Ævarsdóttir eru bændur í Nýjabæ og segir hann þau hafa unnið að þessu í nokkurn tíma með uppbyggingu á stofni með nýju erfðaefni úr holdanautum af Angus-kyni.

Skammur eldistími

Jón Örn segir þau miða að því að láta allar kýrnar bera í maí og júní og að kálfarnir gangi úti fram í miðjan október. Þá séu þeir teknir inn í hús þar sem þeir klári eldið fram á næsta haust. Holdagripirnir séu flestir fimmtán til sextán mánaða gamlir þegar þeir fari í sláturhús og markmiðið sé að hafa eldistímann skamman. Jón Örn bendir á að þegar nautin séu komin í mikla þyngd séu þau orðin dýr á fóðrum þar sem stöðugt meira af orkunni fari í viðhald en vöxt hjá nautunum.

Með þessu náist jafnframt betri nýting á húsunum þar sem gripirnir eru bara einn vetur inni og flestir sláturgripirnir séu farnir áður en næsti hópur kemur inn. Jón Örn segir aðstöðu og velferð gripanna skipta miklu máli. Allar stíurnar séu með mjúku yfirborði og gott pláss fyrir hvern einstakling. Þá leggi þau sig fram við að vera með gott fóður, með kröftugu heyi og heimaræktuðu byggi, sem fari í gegnum heilfóðurblandara.

Hundrað og tuttugu kýr

Um hundrað og tuttugu kýr báru í Nýjabæ síðasta sumar. Jón Örn segir þær allar holdablendinga og eiga þau núna þrjár hreinræktaðar Angus-kvígur.

Þá verði allir kálfar næsta sumars undan arfhreinum Angus- nautum. Á Nýjabæ er mikið notast við sæðingar og hafa bændurnir komið sér upp svokölluðum beiðslisgreini til að geta fylgst með hvenær kýrnar eru yxna. Þær sem festi ekki fang eftir tvær sæðingar og smá tíma með þarfanauti séu sendar í sláturhús.

Nokkuð hafi aukist að nautgripir frá Nýjabæ séu seldir á fæti sem ræktunargripir. Það séu þá bæði naut og kvígur. Jón Örn segir að með því fáist tekjur fyrr inn og þeir gripir sem eru eftir hafi meira rými sem skili sér í betri vexti. Nánar má lesa um niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni á síðum 42-43 í Bændablaðinu.

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...