Hreppsnefnd lagði Skógræktina
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði kröfu Skógræktarinnar um að felldar yrðu úr gildi ákvarðanir hreppsnefndar Skorradalshrepps um að hafna umsóknum um framkvæmdarleyfi vegna skógræktar á jörðunum Stóru Drageyri og Bakkakoti.
Skógræktin kærði hreppsnefnd Skorradalshrepps fyrir að hafna framkvæmdarleyfisumsókn þeirra til nýskógræktar. Sveitarstjórn Skorradalshrepps hafnaði umsókninni vegna þess að þær samræmdust ekki aðalskipulagi hreppsins.
Jarðirnar Stóra Drageyri og Bakkakot í Skorradalshreppi eru í eigu ríkissjóðs en Skógræktin fer með umráð og nýtingu þeirra. Sumarið 2022 hóf Skógræktin undirbúningsframkvæmdir á jörðunum fyrir gróðursetningu en þær voru stöðvaðar af lögreglu. Framkvæmdirnar voru leyfisskyldar og ekki hafði verið aflað framkvæmdarleyfis.
Skógræktin sótti þá um framkvæmdarleyfi. Rækta átti fjölnytjaskóg með blönduðum trjátegundum á 188,7 ha lands á jörð Stóru Drageyri. Á Bakkakoti átti að gróðursetja 50.000 birkiplöntur í gróðureyjar á 36 ha svæði.
Samkvæmt aðalskipulagi hreppsins eru þau svæði sem skógræktin átti að fara fram flokkuð til landbúnaðarnota. Sérstakur kafli með reglur um skógrækt innan landbúnaðarsvæða tiltekur að skógrækt umfram 20 ha sé háð framkvæmdaleyfi. Þá segir í útskurðinum að þau svæði sem sótt var um framkvæmdaleyfi fyrir séu utan afmörkunar um fyrirhuguð skógræktarsvæði á landbúnaðarsvæðum samkvæmt aðalskipulagi.
Úrskurðarnefndin taldi því rétt að hreppsnefndin hafnaði umsókn um framkvæmdarleyfi með vísan til þess að fyrirhuguð skógrækt samræmdist ekki aðalskipulagi. Úrskurðurinn var kveðinn upp þann 7. mars sl.