Hrúturinn Svarti-Smári frá Vatni er héraðsmeistari
Út af dálitlu sem hefur angrað heiminn síðustu mánuði var ekki hægt að halda haustfagnað Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu um veturnætur í október sl. FSD stóð fyrst fyrir sameiginlegri héraðssýningu lambhrúta haustið 2005 og hefði hrútasýningin síðasta haust því orðið sú 16. ef samkomur hefðu verið leyfðar. Í stað hrútasýningar ákvað stjórn FSD að verðlauna skv. fyrirliggjandi dómagögnum gripa ásamt viðbótarupplýsingum úr skýrsluhaldskerfinu Fjárvís.
Frá árinu 2008 hafa verið veitt verðlaun fyrir efstu fimm vetra kindina. Í ár voru það ær fæddar 2015 sem veittar voru viðurkenningar fyrir og þurftu þær að hafa átt lömb vorið 2020 til að komast til uppröðunar. Við uppröðun gildir heildareinkunn kynbótamats. Jafnar í 3. og 4. sæti voru alsystur frá Geirmundarstöðum, ær númer 15-608 og 15-609 með 114,5 í einkunn. Í 2. sæti var ær 15-017 frá Klifmýri með 115,0 í einkunn og í efsta sæti var ær 15-022 frá Klifmýri með 115,2 í einkunn. Ærnar í efstu fjórum sætum þetta árið voru allar dætur Tjalds 11-922 frá Sandfellshaga 2 í Öxarfirði.
Besta gimbrarlambið. Bryndís Karlsdóttir og Þórður Baldursson, Geirmundarstöðum.
Efsta gimbrarlambið
Árið 2015 gáfu Kjartan og Guðrún, fyrrum bændur á Dunk í Hörðudal, bikar sem skyldi veittur besta gimbrarlambi sýslunnar. Við þessa verðlaunaveitingu koma til uppröðunar allar þær gimbrar sem settar eru á til lífs og hafa verið dæmdar. Einkunn fyrir frampart, læri og þykkt ómvöðva eru lögð saman og hæsta gimbur er best. Til viðbótar þurfa gimbrarnar að hafa að lágmarki 7,5 í einkunn fyrir ull, 4 í lögun bakvöðva og ómfita þarf að vera á milli 1,5 og 4 mm. Eins þurfa þær að hafa að lágmarki 100 BLUP stig fyrir frjósemi og mjólkurlagni. Þegar gripir eru jafnir ræður ómfita og lögun bakvöðva röðun.
Í þriðja sæti var 20-140 frá Geirmundarstöðum með 67 í einkunn en hún hafði 38 mm ómvöðva, 10 í einkunn fyrir frampart og 19 í einkunn fyrir læri. Faðir hennar er Loki 19-531 sem var undan Heiki 18-524, héraðsmeistara Dalasýslu árið 2018. Í móðurætt er gimbrin afkomandi Veturs 12-914 frá Hesti.
Í öðru sæti var 20-249 frá Stóra-Vatnshorni með 68,5 í einkunn en hún hafði 40 mm ómvöðva, 9,5 í einkunn fyrir frampart og 19 í einkunn fyrir læri. Faðir hennar er Hiksti 19-009 undan Dreka 13-953 frá Hriflu. Í móðurætt er gimbrin afkomandi hrúts 05-005 frá Stóra-Vatnshorni sem var fyrsti héraðsmeistari á sýningum FSD haustið 2005.
Efsta gimbrin var 20-143 frá Geirmundarstöðum einnig með 68,5 í einkunn og sömu tölur og gimbrin í öðru sæti eða 40 mm ómvöðva, 9,5 í einkunn fyrir frampart og 19 í einkunn fyrir læri. Við röðun réð lögun bakvöðva en gimbrin í öðru sæti var með 4,5 í lögun, en sú í efsta með 5 í lögun. Ómfita á baki var sú sama á báðum eða 2,7 mm. Faðir hennar er Múli 19-528 sonur Glæpons 17-809 frá Hesti og í móðurætt er hún afkomandi Kjarks 08-840 frá Ytri-Skógum.
Verðlaun hrúta
Veitt eru verðlaun í þremur flokkum, flokki mislitra, kollóttra og hyrndra hrúta. Skilyrði var að hrútur væri ásettur og ráða heildarstig. Séu stig jöfn ráða samanlögð stig fyrir frampart, bak, malir og læri. Ef stig eru enn jöfn þá ræður bakvöðvaþykkt, svo fituþykkt og lögun bakvöðva til að skera úr um röðun. Eins gilti að hrútar þurftu að lágmarki 7,5 fyrir ull og 4 í lögun til að komast til uppröðunar. Hrútlömb sem voru gengin einlembingar undan ám tveggja vetra og eldri voru gefin tvö refsistig. Eins gilti að lömbin þurftu að hafa að lágmarki 100 BLUP stig fyrir frjósemi og mjólkurlagni.
Í þriðja sæti í flokki mislitra hrúta var Surtur 20-539 frá Ásgarði undan Ramma 18-834 frá Hesti og afkomandi Kalda 12-950 og Guma 09-880 í móðurætt. Surtur er eins og nafnið gefur til kynna svartur að lit og hyrndur og stigaðist upp á 87 stig. Hann var seldur að Geirmundarstöðum nú í haust.
Í öðru sæti í flokki mislitra hrúta var Grámann 20-504 frá Svarfhóli en hann er grár og kollóttur að lit. Faðir hans er Fengur 19-191, hrútur sem var í sameign fjárræktarfélags Laxárdals og frá Melum 1 í Árneshrepp. Grámann stigaðist upp á 87,5 stig.
Í efsta sæti í flokki mislitra hrúta var Svarti-Smári 20-090 frá Vatni með 89,5 stig. Faðir hans er Fannar 19-082 frá Hesti sem var seldur veturgamall að Vatni en í framætt er Fannar afkomandi Kögguls 17-810. Svarti-Smári er svartur og hyrndur.
Besti kollótti hrúturinn. Finnbogi Harðarson, Sauðafelli.
Kollóttir hrútar
Þegar kom að kollóttum hrútum féllu 12 hrútar út við uppröðun vegna skilyrða um fituþykkt í ómmælingu skyldi vera undir 4 mm eða lágmark 100 BLUP stig fyrir frjósemi og mjólkurlagni.
Allir hrútarnir í efstu þremur sætunum komu frá Sauðfelli en í þriðja sæti var 20-362 með 87,5 stig. Sá hrútur er undan Fálka 17-821 frá Bassastöðum og í móðurætt afkomandi Hnalls 12-934 frá Broddanesi.
Í öðru sæti var 20-363 með 88 stig en faðir hans er Fannar 14-972 frá Heydalsá og í móðurætt er hann afkomandi Kropps 10-890 og Boga 04-814.
Í efsta sæti var síðan 20-367 með 89 stig en faðir hans er heimahrútur númer 18-374 sem er sonarsonur Plútós 14-973 frá Heydalsá en í móðurætt er hann afkomandi Hnattar 09-887 frá Húsavík.
Besti hyrndi lambhrútur Dalasýslu var Bessi, en eigandi er Svavar Jóhannsson í Hlíð.
Hyrndir hrútar
Í þriðja sæti í flokki hyrndra lambhrúta var Tandri 20-091 frá Vatni með 88,5 stig en faðir hans er Tóbías 19-080 frá Bakkakoti í Stafholtstungum sem var afkomandi Saums 12-915 frá Ytri-Skógum. Í móðurætt rekur Tandri sig til Borða 08-838 frá Hesti og Fróða 04-963 frá Hagalandi.
Í öðru sæti var Klettur 20-326 frá Háafelli undan Heimakletti 16-826 með 89 stig en í móðurætt er hann afkomandi Kvists 07-866 frá Klifmýri. Klettur er mjög athyglisvert lamb en samhliða miklum þroska (54 kg) var hann lágfættur (104 mm) og verður fróðlegt að sjá hvernig afkvæmi hans koma út næsta haust.
Í efsta sæti var síðan Bessi 20-056 frá Hlíð með 89,5 stig en hann er sonur Amors 17-831 frá Snartarstöðum í Núpasveit og móðir hans er ein af dætrum Dúdda 14-699 frá Ósi, en margir afkomenda Dúdda hafa sýnt mikla yfirburði er kemur að skrokkgæðaeiginleikum á undanförnum árum.
Besti misliti lambhrútur Dalasýslu var Svarti-Smári sem jafnframt er héraðsmeistari. Eigandi er Sigurður Hrafn Jökulsson, bóndi á Vatni.
Héraðsmeistari 2020
Svarti-Smári 20-090 var héraðsmeistari FSD árið 2020 en líkt og Bessi 20-056 höfðu báðir 89,5 stig. Það sem skildi þá að voru samanlögð stig fyrir frampart, bak, malir og læri en þar hafði Svarti-Smári 56,5 stig en Bessi 56 stig.
Þetta er í fyrsta skipti sem mislitur hrútur hlýtur nafnbótina héraðsmeistari FSD en í langflestum tilvikum hafa þeir komið úr hópi hvítra hyrndra hrúta. Svarti-Smári var dæmdur um leið og hann kom heim úr sumarhögum þann 7. september en þá var hann 54 kg, fótleggur 109 mm. Ómmæling 35-3,2-5,0. Stigun: 8-9-9,5-9,5-9,5-19-8-8-9, alls 89,5 stig.
Eyjólfur Ingvi Bjarnason tók saman uppröðun á dómum fyrir stjórn FSD út frá skráðum gögnum í Fjárvís en áður hafði verið sendur hvatningarpóstur til félagsmanna um að ganga frá skráningum, þ.e. setja fullorðinsnúmer í gripina í Fjárvís og skrá hornalag fyrir ákveðinn tíma. Svavar Jóhannsson, formaður FSD, og Jón Egill Jóhannsson, gjaldkeri félagsins, fóru síðan í bíltúr rétt fyrir jól og afhentu ræktendum þeirra gripa sem lentu í efstu sætum viðurkenningu fyrir árangurinn.