Fjör hjá ungum veiðimönnum við Brynjudalsá
Höfundur: Gunnar Bender
Brynjudalsá í Hvalfirði er laxveiðiá sem gefur vel af laxi á hverju sumri og núna er áin komin í 100 laxa og það er víða kominn lax í hana. Jafnvel í innstu veiðistaði inni á dal.
Ungir veiðimenn voru á árbakkanum fyrir fáum dögum og skemmtu sér vel, enda veiðin góð og fiskur að taka fluguna.
„Jú, þetta var gaman, við fengum 7 laxa með krakkana en þetta er árleg veiðiferð. Í fyrra var það Laxá í Dölum og þar veiddist vel,“ sagði Jón Þór Júlíusson, sem byrjaði kornungur að veiða með föður sínum, Júlíusi Jónssyni.
,,Áin er komin í 100 laxa og við fengum fína 7 laxa á fluguna vítt og breitt um ána. Það þarf kannski aðeins að aðstoða liðið, en þau eru áhugasöm og vilja landa fisknum alveg sjálf,“ sagði Jón enn fremur.
Bara er veitt á flugu í Brynjudalsá eins og Laxá í Kjós í næsta nágrenni. Eina áin sem leyfir maðk á svæðinu er Botnsá og þar voru veiðimenn að fá fisk í vikunni.