Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Fréttir 18. janúar 2019
Höfundur: EB / HKr.
Innflutningur á landbúnaðarafurðum hefur farið vaxandi undanfarin ár. Samanburður milli áranna 2016 og 2017 sýndi umtalsverðan mun, allt að þreföldun í einstaka vöruflokkum eins og mjólkurafurðum.
Fyrstu 11 mánuði ársins 2018 nálgast innflutningur flestra sömu afurða toppinn frá 2017. Heldur virðist þó hafa hægt á innflutningi á svína- og alifuglakjöti samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.
Veruleg aukning varð í innflutningi á mjólk, mjólkur- og undanrennudufti og rjóma á árinu 2017. Jókst sá innflutningur þá á milli ára um 201%, eða í rúmlega 151 tonn, sem þýðir þreföldun á innflutningi ársins 2016 þegar flutt voru inn rúm 50 tonn. Var innflutningur í lok nóvember sl. kominn í 84,9% af innflutningi alls ársins 2017.
Ostainnflutningur tók líka vel við sér á árinu 2017, en þar var þá 56% aukning milli ára. Virðist innflutningur á síðasta ári verða svipaður en í lok nóvember var magnið komið í 92,3% af heildarinnflutningi osta 2017.
Mikill innflutningur á nautakjöti hefur aukist mjög
Innflutningur á nautakjöti á fyrstu 11 mánuðunum 2018 námu tæplega 762 tonnum miðað við tæp 849 tonn allt árið 2017 sem var þá 34% aukning frá árinu 2016. Var innflutningur nautakjöts kominn í 89,8% af innflutningi fyrra árs í lok nóvember.
Í svínakjötinu virðist vera samdráttur í innflutningi á síðasta ári í kjölfar 40% aukningar á milli áranna 2016 og 2017. Í lok nóvember sl. var búið að flytja inn rúm 845 tonn af svínakjöti á móti rúmlega 1.368 tonnum allt árið 2017.
Búið var að flytja inn tæp 913 tonn af kjúklingakjöti í lok nóvember sl. en flutt voru inn rúm 1.206 tonn allt árið 2017. Virðist einnig vera um nokkurn samdrátt að ræða í þeim innflutningi á síðasta ári.
Innflutningur á kalkúnakjöti jókst um 98% á milli áranna 2016 og 2017 er flutt voru inn 120 tonn. Mesta kalkúnasalan er að jafnaði í lok árs, en í nóvember var einungis búið að flytja inn 58% af innflutningi fyrra árs.
Nær óbreytt staða í grænmetisinnflutningi á milli ára
Innflutningur á papriku, sveppum og tómötum jókst um 6–23% á milli áranna 2016 til 2017. Í lok nóvember sl. var hann kominn í 90–95% af innflutningi fyrra árs svo horfur voru á litlum breytingum þar milli ára.
Vandi er að fullyrða um áhrif aukins innflutnings á verð á matvörum, en forsvarsmenn innflytjenda hafa látið í veðri vaka að aukinn innflutningur leiði til aukinnar samkeppni og lægra verðs til neytenda. Þeim láist þó að geta þess að þetta leiðir ekki sjálfkrafa til þess að fleiri aðilar séu á markaði, sem er venjulega ein grunnforsenda aukinnar samkeppni.
Nautakjöt hækkaði umfram vísitölu
Sé litið til 4 ára tímabils frá janúar 2015 til desember 2018 hækkaði vísitala neysluverðs um 10,6%. Á sama tíma hækkaði verð á nautakjöti um 13,1%, en innflutningur hefur vaxið hvað hraðast á nautakjöti. Þetta er nokkuð á skjön við fullyrðingar um að aukinn innflutningur og aukið framboð leiði til lægra vöruverðs til neytenda. Aftur á móti lækkaði verð á lambakjöti til neytenda um 8,8%, samkvæmt vísitölu neysluverðs. Vart þarf að geta þess að enginn innflutningur hefur verið á lambakjöti.
Fréttir 20. desember 2024
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...
Fréttir 20. desember 2024
Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...
Fréttir 20. desember 2024
Vænlegt lífgas- og áburðarver
Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...
Fréttir 19. desember 2024
Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...
Fréttir 19. desember 2024
Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...
Fréttir 19. desember 2024
Bjart er yfir Miðfirði
Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...
Fréttir 18. desember 2024
Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...
Fréttir 18. desember 2024
Mánaðarleg upplýsingagjöf
Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...
20. desember 2024
Á kafi í hrossarækt
20. desember 2024
Særður fram úr myrkviðum aldanna
20. desember 2024
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
6. febrúar 2024
Yrja vettlingar
20. desember 2024