Innkallanir á sýktu kjöti tvöfaldast á fimm árum
Samkvæmt tölum sem Landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna hefur birt tvöfölduðust innkallanir á sýktu rauðu og hvítu kjöti í landinu á árunum 2013 til 2018. Innkallanir á alvarlega sýktu kjöti voru 97 árið 2018, eða fjórða hvern dag og alls rúm 5,4 milljón tonn.
Í flestum tilfellum var kjötið innkallað vegna alvarlegrar salmónellusýkingar, það sem í Bandaríkjunum kallast „Class One“ sýking og getur valdið alvarlegri sýkingu og jafnvel dauða neytenda.
Samkvæmt nýlegri skýrslu um sýkingar í kjöti í Bandaríkjunum segir að því miður sé það staðreynd að sífellt meira af hættulega sýktu kjöti sé á markaði og að berast inn á borð þjóðarinnar og breytir þá engu hvort um sé að ræða rautt kjöt eða kjúklinga.
Kjötframleiðendur í Bandaríkjunum hafa svarað skýrslunni og segja að auknar innkallanir séu vegna aukins eftirlits en ekki vegna þess að meira af sýktu kjöti sé í umferð.
Þrátt fyrir aukið eftirlit eru skráð um 48 milljón tilfelli af völdum mataeitrunar á ári í Bandaríkjunum. Um 120.000manns lenda á spítala og um 3.000 manns látast af völdum matareitrana í Bandaríkjunum á ári.
Í skýrslunni er eftirlit með matvælum og matvælaframleiðslu í Bandaríkjunum gagnrýnt harðlega. Meðal annars vegna þess að þrátt fyrir að afbrigði sýklalyfjaónæmrar salmónellu greinist í kjöti sé sala þess leyfileg.
Svar kjötframleiðenda við þessu er að salmónella sé náttúruleg baktería sem ekki sé hægt að losna við að fullu. Í svari sínu greina þeir ekki á milli salmónellu sem hefur öðlast sýklalyfjaónæmi vegna ofnotkunar á sýklalyfjum í landbúnaði og salmónellu sem finnst víða í umhverfinu.