Ísland í fararbroddi alþjóðlegrar stefnumótunar
Votlendi gegnir lykilhlutverki þegar kemur að því að aðlagast breytingum á lífríki á tímum loftslagsbreytinga, að sögn dr. Tom Barry, framkvæmdastjóra CAFF, vinnuhóps Norðurheimskauts-ráðsins, um verndun lífríkisins á Norðurslóðum sem starfrækt er á Akureyri.
Þar fór fram viðamikið verkefni um votlendi þar sem tvinnuð voru saman vísindi og stjórnsýsla með sjálfbæra þróun Norðurslóða að leiðarljósi. „Þetta verkefni er lýsandi dæmi um hvernig Ísland, þrátt fyrir að vera lítil þjóð, getur verið leiðandi í samstarfi og haft þannig mikil áhrif á alþjóðleg málefni,“ segir Tom.
Norðurskautsráðið er vettvangur samstarfs um sjálfbæra þróun á Norðurslóðum. Aðildarríki ráðsins eru átta; Bandaríkin, Danmörk, Finnland, Ísland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð, auk sex frumbyggjasamtaka af svæðinu.
Þá eiga þrettán ríki áheyrnaraðild, svo sem Indland og Kína.
„Við höfum greint lykilþætti hvers vistkerfis á Norðurslóðum. Ef þessir lykilþættir breytast á einhvern hátt gefur það til kynna enn frekari breytingar á vistkerfinu og við því þarf að bregðast. Okkar verkefni er að fylgjast með þessum vistkerfisbreytingum og leggja mat á þær. Við matið fáum við til liðs við okkur fagfólk í málefnum Norðurslóða, vísindamenn, fræðafólk og frumbyggja af svæðinu svo eitthvað sé nefnt. Úr þessu mótum við samþætta þekkingu sem liggur til grundvallar ráðgjöf okkar fyrir stefnumótendur, ráðherra og ríkisstjórnir aðildarríkjanna,“ segir Tom um starfsemi CAFF (Conservation of Arctic Flora and Fauna) sem er vinnuhópur undir Norðurskautsráðinu er vinnur að vernd lífríkis og líffræðilegs fjölbreytileika á Norðurslóðum.
Undir Norðurskautsráðinu eru reknar sex deildir og eru tvær þeirra, fyrrnefnt CAFF og verndun hafsvæða (PAME), starfandi á Akureyri.
„Á Akureyri hafa 2 af 6 vinnu- hópum Norðurskautsráðs aðsetur þar af 2 af 3–4 stærstu og virkustu hópunum og stór hluti af vinnu Norðurskautsráðsins er skipulögð héðan en starfsfólk okkar er víða um heim, auk þess sem yfir hundrað vísindamenn geta komið að hverju verkefni fyrir sig. Þetta þýðir að Ísland er miðpunktur fjölbreyttra mikilvægra verkefna sem tengjast Norðurslóðum,“ segir Tom.
Tuttugu tillögur
Ísland hefur haft forgöngu um að draga fram mikilvægi votlenda innan Norðurskautsráðsins og hafa þeir leitt, ásamt Svíum, RAW verkefnið (Resilience and management of Arctic Wetlands) sem lýtur að stjórnun og verndun votlenda á Norðurslóðum.
Verkefnið hófst formlega árið 2017. „Fyrsti áfangi snerist um að kortleggja þá þekkingu sem til er um votlendi á Norðurslóðum; stöðu þeirra í öllum Norðurskautsríkjunum og meðhöndlun þeirra,“ segir Tom en í öðrum áfanga var stjórnun og verndun votlendis í brennidepli þar sem aðferðafræði endurheimtar voru greindar, framkvæmd og eftirfylgni í mismunandi ríkjum sem og þátttaka heimamanna í votlendisstjórnun skoðaðar. Þriðji áfangi var svo vinnsla skýrslu með meginniðurstöðum og stefnumótandi ráðleggingum sem afhentar voru á ráðherrafundi utanríkisráðherra aðildarríkjanna í Reykjavík í maímánuði í fyrra.
„Þar var ráðherrunum afhent yfirgripsmikið skjal sem innihélt tuttugu ráðleggingar um stefnu og helstu niðurstöður um það sem við vitum um votlendi og hvernig við getum nálgast stjórnun þeirra betur á sjálfbæran hátt,“ segir Tom.
Plaggið inniheldur tillögur um aðgerðir sem æskilegt er að grípa til, bæði hvað varðar endurheimt votlendis, viðhald þeirra og bætta þekkingu á þeim.
Þessi tilmæli mynda nú ramma um ákvarðanir Norðurskautsráðsins hvað votlendi varðar. „Ráðið hefur nú gert áætlun um hvernig eigi að hrinda þessum endurbótum í framkvæmd,“ segir Tom en bendir á að ríkin þurfi kannski að fara ólíkar leiðir miðað við stöðu hvers lands fyrir sig.
„Á sumum stöðum þarf að bæta verulega í svæðisbundna vísindastarfsemi, á öðrum stöðum horfum við á stjórnsýslulegar flækjur sem þarf að leysa. En við erum lögð af stað og orðin sammála um lykilþætti þessa viðamikla verkefnis og þau skref sem þarf að taka. Næst á dagskrá er að hefja samstarf við sérfræðinga og sjá til þess að innleiðing tilmælanna munu í reynd hafa áhrif, þannig að við sjáum eftir nokkur ár raungerðan áhrifamátt verkefnisins,“ segir Tom.
Votlendi á Norðurslóðum
Næstum helmingur votlendis heimsins er staðsettur á Norðurslóðum þar sem þau eru allt að 60% alls vistkerfis þar.
Votlendi er skipt upp í fjórtán vistgerðir sem innihalda m.a. mýrar, flóa, rakar túndrur, ýmis vatnskerfi og grunnsæfi. Þessi svæði hafa mikilvæg vatnsfræðileg og næringarfræðileg gildi sem og að þjóna vistkerfinu sem fóður- og varpsvæði fyrir viðkvæmt dýralíf, sér í lagi farfugla og fjölmargra fisktegunda.