Íslenskir neytendur vilja upprunamerkta matvöru
Framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna kallar eftir átaki í upprunamerkingu matvæla og tafarlausum aðgerðum stjórnvalda til að stemma stigu við háum vöxtum.
„Við fáum töluvert margar ábendingar varðandi matvæli en um 80% þeirra snúa að merkingum,“ segir Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna. Fyrst og fremst sé verið að kalla eftir upprunamerkingum matvæla. Hún segist undrandi að sjá ekki fleiri upprunamerktar vörur hérlendis og íslenska fánann ekki notaðan meira til merkinga en raun beri vitni.
Fólk vilji sjá hvaðan varan kemur, m.a. kjöt.
Meiri sveigjanleika þörf
Brynhildur hafði framsögu á málþingi á Degi landbúnaðarins í Hofi 13. október sl., þar sem hún fjallaði m.a. um sviðsmyndagreiningar starfshópa stjórnvalda um landbúnaðarmál. Áform væru nú um þingsályktunartillögu að stefnumótun í landbúnaði. Stefnan væri mjög opin og þangað til hún sæi aðgerðaáætlun væri mjög erfitt að segja til um hvort stefnan væri haldbær.
„Eitt af því sem hefur komið út úr öllum starfshópum sem ég hef komið að er að sveigjanleika vantar í kerfið. Með auknum sveigjanleika ætti að verða meiri fjölbreytni. Íslenskur landbúnaður stendur sig þó nokkuð vel hvað það varðar. Við erum í rauninni með ótrúlega fjölbreytta framleiðslu hér þótt hún mætti vissulega vera enn meiri,“ segir hún. Alltaf þurfi að gera þeim sem komi með nýjungar kleift að koma þeim á framfæri til að sjá hvort yfir höfuð sé eftirspurn.
Íslenskt staðfest lofar góðu
Hún lýsir ánægju með vinnu að Íslenskt staðfest, nýju upprunamerki fyrir íslenskar matvörur og blóm, sem nú er unnið að innleiðingu á, m.a. með fulltingi Bændasamtakanna. Aðeins verður heimilt að nota merkið á vörur sem framleiddar eru og pakkað á Íslandi. Brynhildur segir Íslenskt staðfest mikið hagsmunamál neytenda.
„Upprunamerkingar eru eitthvað sem við höfum fylgst með lengi enda ýmsar merkingar verið settar af stað. Mér líst þó vel á þá vinnu sem er að baki þessu merki og finnst eins og þar sé vandað til. Ég veit að neytendur kalla eftir þessu. Þetta er löngu tímabært og við skulum vona að framleiðendur noti þetta merki því mjög margir vilja kaupa íslenskar afurðir.“
Verður að ná vöxtum niður
Brynhildur kallar eftir tafarlausum aðgerðum stjórnvalda varðandi hátt vaxtastig. „Ég held að mörgum bregði við hina miklu verðbólgu, sem er til komin vegna þess að vöruverð, m.a. matur, hefur hækkað,“ segir Brynhildur. „Við vitum hvernig vaxtakjör eru að leika heimilin í landinu, og ekki síður framleiðendur eins og bændur, og þá hugsar maður hvernig það muni koma til með að velta út í verðlagið. Hið háa vaxtastig er eitthvað sem við þurfum öll að hafa verulegar áhyggjur af. Það segir sig sjálft að bændur taka heldur ekki endalaust á sig auknar álögur og því ætti þetta að vera eitthvað sem stjórnvöld væru að horfa á núna og ekki gera neitt annað en að reyna að ná vöxtunum niður,“ segir hún.
Þegar kemur að innflutningi á matvælum og umræðu um fæðuöryggi hérlendis segist Brynhildur telja að stærstur hluti af matarkörfunni verði alltaf íslenskur, þótt ekki sé nema vegna fjarlægðarverndar, og eigi það við um t.d. egg og mjólkurvörur.
Mætti auka samtalið
Hún segir að auka ætti samtal Neytendasamtakanna og Bændasamtaka Íslands. „Kannski hefur það á köflum ekki verið nógu mikið. Hagsmunirnir fara, þrátt fyrir allt, yfirleitt saman og allir vilja íslenskum landbúnaði vel.“
Hún nefnir, sem dæmi um hvar á steyti, frumvarp sem er nú í samráðsgátt stjórnvalda þar sem lagt er til að fyrirtækjum sem eru í eigu eða undir meirihlutastjórn frumframleiðenda verði heimilt að eiga með sér samstarf um afmarkaða þætti. „Þetta er mjög viðkvæmt og eitthvað sem við hræðumst frekar fyrir hönd neytenda, þótt við skiljum í rauninni hvaðan bændur koma í þessu máli.“ Tollverndin sé annað mál. „Það er mikil verndarstefna á Íslandi og það geta verið hagsmunir neytenda að hafa meira úrval og geta keypt mat á lægra verði, sem dæmi.“ Skoða beri fremur 15. gr. samkeppnislaga sem í rauninni heimili samráð og láta reyna á það fyrst. „En sem betur fer erum við og Bændasamtökin líka með mikið af sameiginlegum flötum. Við viljum öll hafa öflugan landbúnað.“