Íslenskt fiskinasl útnefnt besta sjávarafurðin
Á mánudaginn var hið íslenska Næra fiskinasl frá Responsible Foods útnefnt besta sjávarafurðin í alþjóðlegu matvælakeppninni World Food Innovation Awards.
Um nýsköpunarkeppni framleiðenda matvæla er að ræða og komst önnur vara frá fyrirtækinu, Næra skyrnasl, í úrslit í nýsköpunarflokki keppninnar.
Að sögn Holly T. Kristinsson, framkvæmdastjóra Responsible Foods, er Næra fiskinasl alveg ný útgáfa af íslenskum harðfiski þar sem notast er við sérstakt þurrkunarferli við vinnsluna á vörunni. „Við höfum orðið vör við aukinn alþjóðlegan áhuga á þessari afurð okkar og viðurkenningin mun verða lykilþáttur í því að geta gert hana enn sýnilegri á heimsmörkuðum,“ segir Holly.
Samstarf við Loðnuvinnsluna
Responsible Foods vinnur fiskinaslið sitt í hátæknivinnslu sinni á Fáskrúðsfirði og vinnur náið með Loðnuvinnslunni þaðan sem hráefnið kemur. Fiskinaslið inniheldur einnig íslenskan ost og smjör frá Mjólkursamsölunni sem á í góðu samstarfi við fyrirtækið. Í tilkynningu er haft eftir Herði G. Kristinssyni rekstrarstjóra að fólk sem jafnvel borðar ekki fisk sé hrifið af naslinu. Með þessari vöruþróun hafi einmitt verið ætlunin að umbylta hefðbundnum harðfiski yfir í form sem breiðari hópur geti borðað.