Jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta lífsnauðsynleg
Fulltrúar í Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hafa undanfarin ár þrýst mjög á þingmenn og Vegagerðina að hraða undirbúningi og framkvæmdum við jarðgöng á milli Fljóta og Siglufjarðar.
Nú sem aldrei fyrr er lífsnauðsynlegt að göngin komist til framkvæmda því jarðsig, skriðuföll og grjóthrun hefur verið með mesta móti á undanförnum misserum eins og þeir þekkja sem aka daglega um veginn segir í bókun frá fundi byggðaráðs. Tíðar jarðskjálftahrinur úti fyrir Tröllaskaga bæta ekki ástandið.
„Það er mál manna að það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær Siglufjarðarvegur rofnar á löngum kafla,“ segir í bókun.
Heimamenn hafðir með í ráðum
Skorar Byggðaráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar á alþingismenn og samgönguráðherra að tryggja að undirbúningi jarðganga á milli Fljóta og Siglufjarðar verði lokið sem fyrst og tryggja fjármögnun til að framkvæmdir við gerð þeirra geti hafist innan tíðar. Byggðarráð hvetur Vegagerðina jafnframt til að hafa heimamenn í Fljótum og á Siglufirði með í ráðum við greiningu á heppilegri legu ganganna.