Kínverjar hrifnir af rauðum smíðavið
Rauður rósaviður nýtur mikilla vinsælda í Kína þar sem smíðuð eru úr honum húsgögn og skrautmunir. Megnið af rósaviðnum sem Kínverjar nota kemur frá Vestur-Afríkuríkinu Gínea-Bissá þar sem hann er felldur ólöglega.
Pólitískt ástand í Gínea-Bissá er ótryggt og hefur verið í mörg ár. Í skjóli þess hefur rósaviður verið felldur á gríðarlega stórum landsvæðum. Ágangurinn hefur verið það mikill að trén sem kallast afrískur rósaviður eru jafnvel talin í útrýmingarhættu en það tekur trén um fimmtíu ár að ná hentugri stærð í smíðavið.