Kjötframleiðsla eykst áfram
Samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands jókst innlend kjötframleiðsla um 15 prósent í júlí, miðað við sama mánuð á síðasta ári.
Þegar horft er til fyrstu sjö mánaða áranna er vöxtur í öllum kjötframleiðslugreinunum þremur sem Hagstofan heldur utan um.
Á þessum mánuðum hefur svínakjötsframleiðslan vaxið mest, eða samtals um 7,9 prósent. Alifuglaframleiðslan hefur aukist um 4,4 prósent og nautgripakjötsframleiðslan um 1,7 prósent.
Í júnímánuði dróst framleiðslan saman um sex prósent miðað við á síðasta ári og um tíu prósent í mars, var jafnmikil í maí en í öðrum mánuðum hefur orðið vöxtur og mestur í apríl, um 25 prósent.
Þegar rýnt er í tölur nautgripakjötsframleiðslunnar kemur í ljós að á fyrstu sjö mánuðum ársins hefur framleiðsla á kálfakjöti minnkað um 2,5 prósent, miðað við sömu mánuði í fyrra. Einnig á kýrkjöti, um 2,6 prósent, en aukist um 3,3 prósent á ungnautakjöti – sem er langstærsti framleiðsluflokkurinn.