Kjúklingum á Indlandi gefið heimsins sterkasta sýklalyf
Alþjóðleg heilsuviðvörun hefur verið gefin út í framhaldi af því að komið hefur í ljós að kjúklingabændur á Indlandi hafa notað þúsundir tonna af sýklalyfinu colostin við eldi.
Colostin er eitt fárra sýklalyfja sem notað er gegn sýkingum þegar engin önnur lyf virka.
Indland eru eitt af stærstu matvælaframleiðslulöndum í heimi og flytja árlega út gríðarlegt magn af kjúklingakjöti. Komið hefur í ljós að árlega nota indverskir kjúklingabændur sterk sýklalyf við eldið og þar á meðal þúsundir tonna af lyfinu Colostin. Colostin er eitt fárra sýklalyfja sem notað er gegn sýkingum þegar engin önnur lyf virka og er talið að notkun þess í landbúnaði auki enn á hættuna á að fram komi svokallaðar ofurbakteríu sem eru ónæmar fyrir öllum sýklalyfjum sem til eru í dag. Slíkt gæti haft skelfilegar afleiðingar og hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að sýklalyfjaónæmi sé ein stærsta ógn við lýðheilsu jarðarbúa í dag.
Farmskrár sýna að gríðarlegt magn af Colostin hefur verið flutt til Indlands á síðustu árum. Á Indlandi er lyfið selt til bænda sem nota það til að fyrirbyggja sjúkdóma og sem vaxtarhvata.
Alvarleiki málsins felst í því að lyf sem ætlað var sem síðasta úrræði í baráttunni við alvarlegar bakteríusýkingar er nú notað til að auka vaxtarhraða og stærð kjúklinga. Afleiðingin gæti verið sú að lyfið verði fljótlega ónothæft til lækninga.