Konur ráða ríkjum í Nautgriparæktarfélagi Eyfellinga
Sá sögulegi viðburður átti sér stað á dögunum á aðalfundi Nautgriparæktarfélags Eyfellinga undir Eyjafjöllum að stjórn félagsins eftir fundinn er eingöngu skipuð konum þar sem Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir á Stóra-Mörk er formaður.
„Já, þetta er skemmtilegt og við erum stoltar konur, sem skipum stjórnina. Félagið er opið öllum þeim sem eiga kýr eða kú á fóðrun undir Vestur- og Austur-Eyjafjöllum. Í dag eru 16 bú aðilar að félagsskapnum. Starfsemi félagsins er ekki stór, en reynt er að fara reglulega í fræðsluferðir og kynna sér nýjungar og hitta aðra bændur utan starfssvæðis félagsins,“ segir Aðalbjörg Rún.
Undanfarin ár hefur aðalfundur félagsins verið haldinn í einu af fjósunum á félagssvæðinu, sem hefur mælst vel fyrir. Fundirnir verða þá vel sóttir og vinsælt hjá félagsmönnum að sækja nágranna sína heim á þennan hátt. Svo skemmtilega vildi til að á síðasta aðalfundi, sem var haldin á búinu Nýjabæ, var þriðja konan kjörin í stjórn félagsins, eða Edda, sem er bóndi á bænum.