Kristinn Hugason ráðinn forstöðumaður Söguseturs íslenska hestsins
Sögusetur íslenska hestsins hefur ráðið Kristin Hugason sem forstöðumann setursins.
Kristinn er með M.Sc-próf í búfjárkynbótafræði og MA-próf í opinberri stefnumótun og stjórnsýslu, hann er gerkunnugur innan íslenska hestaheimsins í gegnum störf sín, m.a. sem landsráðunautur BÍ í hrossarækt.
Kristinn Hugason.
Meginverkefni Kristins fyrst í stað verða að vinna að framtíðarstefnumótun fyrir Sögusetrið í samstarfi við stjórn þess, afla styrkja til að tryggja rekstur setursins til framtíðar, hvoru tveggja til verkefnavinnu og uppsetningu sýninga til að kynna og efla þekkingargrunninn um sögu íslenska hestsins og samfylgd hans með þjóðinni frá örófi alda. Sérstök áhersluverkefni verða að undirbúa aðkomu setursins að landsmóti hestamanna á Hólum 2016 og vinna við greiningu og flokkun á ljósmyndasafni setursins sem er mikið að vöxtum og þarf að koma í varanlega geymslu.