Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Krummusæti fyrir börn
Mynd / MÞÞ
Fréttir 22. september 2015

Krummusæti fyrir börn

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
 „Þetta hefur verið strembið, en líka mjög skemmtilegt. Það er gaman að sjá hugarfóstur sitt komið svona langt, verða til úr nánast engu og að fullunninni vöru,“ segir Eyrún Huld Ásvaldsdóttir, hugmyndasmiðurinn á bak við svonefnt Krummusæti. 
 
Þarna er um að ræða aukasæti framan á hnakki, sérstaklega hannað fyrir börn sem fara á hestbak með fullorðnum. Nafnið dregur sætið af dóttur Eyrúnar, Hröfnu Lilju, sem stundum er kölluð Krumma. Eyrún kynnti Krummusætið á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Herning í Danmörku og segir viðtökur hafa verið afskaplega góðar. „Við erum mjög ánægð með þá athygli sem við höfum fengið hér úti, það er virkilega gaman hversu vel hefur gengið,“ segir Eyrún Huld.
 
Fyrsta minningin úr reiðtúr með pabba
 
Eyrún ólst upp á Hömrum ofan Akureyrar þar sem nú er Úti­lífsmiðstöð og tjaldsvæði. Foreldrar hennar voru þar með búskap, kýr, svín og hesta. 
„Fyrsta minning mín er að ég fór á hestbak með pabba og týndi öðru stígvélinu mínu,“ segir hún en áhugi fyrir hestamennskunni kviknaði strax á unga aldri. Frá Hömrum lá leið fjölskyldunnar austur í Álftafjörð en á unglingsárum slitnaði þráðurinn um skeið og var ekki tekinn upp á ný fyrr en Eyrún flutti með eiginmanni sínum, Baldri Jónassyni, að Bæ III, skammt norðan við Drangsnes. Þar fékk hún sér hesta aftur, alls þrjá, og flutti tvo þeirra með sér þegar fjölskyldan fluttist til Akureyrar árið 2011.
Sú stutta varð fljótt hænd að hestunum
 
Dóttir Eyrúnar og Baldurs var þá eins árs, fæddist árið 2010. Hún fór fljótt að fylgja mömmu sinni í hesthúsið og að bregða sér með henni á bak. 
„Hún sýndi strax mikinn áhuga á hestamennskunni, varð hænd að hrossunum og við byrjuðum á að teyma undir henni. Svo vildi hún ólm koma með mér á bak, fara í fullorðinsreiðtúr. Það er ekki gott, hvorki fyrir knapann né barnið, að setja það framan á hnakkinn svo ég fór að skoða hvað væri í boði,“ segir Eyrún.
 
Tempurkoddi, belti og axlabönd
 
Byrjaði hún á að leita á netinu, en fann ekkert sem hentaði og hún hafði hugsað sér. Einungis voru til tvöfaldir hnakkar og barnahnakkar til að festa aftan við venjulegan hnakk. Þá greip hún til þess ráðs að reyna að útbúa sæti fyrir Hröfnu.
„Ég byrjaði bara sjálf að fikra mig áfram. Það fyrsta sem ég gerði var að taka tempurkodda og skera hann aðeins til og festi okkur mæðgur svo saman með belti af Baldri og það þróaðist svo út í axlabönd með áföstu belti sem fór utan um okkur báðar. Þetta var allt heimagert og það efni sem tiltækt var notað. Þetta var betra en að nota bara hnakkinn en alls ekki nógu gott þannig að ég hélt áfram að velta þessu fyrir mér. Á þeim tíma datt mér ekki í hug að þessi hugmynd mín, sem átti nú bara að vera heimasmíðuð lausn fyrir okkur Hröfnu, myndi vinda svona upp á sig eins og raun ber vitni,“ segir Eyrún.
 
Fékk byr undir báða vængi
 
Hún hafði verið á Punktinum og konurnar þar hvöttu Eyrúnu til að taka þátt í Atvinnu- og nýsköpunarhelgi í Háskólanum á Akureyri í fyrravor og vinna þar með hugmynd sína.
„Ég lét til leiðast og skráði mig eftir svolitlar fortölur, ég hafði á þeim tíma sjálf ekki mikla trú á að eitthvað yrði úr þessu,“ segir Eyrún. Skemmst er frá því að segja að hugmynd hennar hreppti þriðja sætið og 200 þúsund króna peningaverðlaun til að þróa hana áfram. „Það gaf mér byr undir báða vængi, ég fór þá fyrst að meðtaka það að eitthvert vit var í þessu hjá mér,“ segir hún.
Eyrún fór í framhaldinu til forsvarsmanna Tjald- og seglaþjónustunnar og ræddi við þá um hugsanlegt samstarf við þróun vörunnar. Vel var tekið í erindið og tóku starfsmenn fyrirtækisins þátt í þróunar- og framleiðsluferlinu strax í upphafi. 
 
Hönnun hefur tekið breytingum 
 
„Við höfðum að leiðarljósi að sætið þyrfti að vera lítið og þægilegt fyrir barnið að sitja í því,“ segir hún. Hönnunin hefur tekið breytingum á því ári sem unnið hefur verið að verkefninu, það á við bæði um útlit og lögun og einnig urðu festingarnar einfaldari. Eyrún segir að alls hafi verið gerðar sjö prufur þar til niðurstaða fékkst.
Sætið sjálft er samsett úr skel úr trefjagleri, setan er úr minnissvampi og það er klætt með leðri að ofanverðu. Undirlagið er klætt rúskinni, sem gerir það stamt og lítt hreyfanlegt. Einnig eru stillanlegir púðar undir sætinu sem stilla það af á hnakknum. Belti fylgir með sem festir barnið við knapann, hann er því sjálfur með lausar hendur til að stýra hestinum. Sætið er fest á einum stað með reim sem gengur undir hnakkinn og aftur í reiðafestinguna, þannig að auðvelt er að festa það og taka af.
 
Dregur ekki milljónir upp úr vasanum sjálfur
 
Næsti áfangi í ferlinu varð í desember síðastliðnum þegar Eyrún hlaut styrk úr Vaxtasamningi Eyjafjarðar. Lokaáfangi þess samnings er nú senn á enda og annar tekur við, en Eyrún hlaut einnig styrk frá Atvinnumálum kvenna á liðnu vori og er hann um það bil að hefjast. Sá styrkur verður nýttur til markaðsstarfs.
 
„Það má segja að boltinn hafi heldur betur farið að rúlla, því auðvitað dregur maður sjálfur ekki milljónir upp úr vasanum til að sinna verkefni á borð við þetta. Þetta er dýrt og það er ómetanlegt að fá þann stuðning sem ég hef fengið. Ég er afskaplega þakklát fyrir þann velvilja sem verkefni mínu hefur verið sýndur,“ segir hún. Framleiðsla á Krummusæti er þegar hafin og sala hefst innan tíðar. Eyrún segir að einungis eigi eftir að fara í gegnum öryggisprófanir hjá Miðstöð slysavarna barna og að þeim loknum geti sala hafist.
 
Á heimsmeistaramótinu í Herning
 
Eyrún hefur þegar kynnt Krummu­sætið á gömlum heimaslóðum fyrir austan, m.a. á Hornafirði og Breiðdalsvík, og hlaut góðar viðtökur. Þá er hún að undirbúa ferð í Skagafjörð, Húnavatnssýslur og á höfuðborgarsvæðið. Þaðan lá leiðin á Heimsmeistaramótið í Herning í Danmörku en þar hefur Eyrún staðið vaktina í liðinni viku. 
 
„Viðtökur hafa verið mjög góðar og jákvæðar, það líst öllum mjög vel á þetta og það er virkilega ánægjulegt. Ég finn fyrir miklum áhuga.“ 
 
Og af því Eyrún er komin út fyrir landsteinana ætlar hún einnig að fara með Krummusætið til Noregs og koma við bæði í Osló og Þrándheimi. 

5 myndir:

Ársgamall kjúklingur enn í verslunum
Fréttir 16. júlí 2024

Ársgamall kjúklingur enn í verslunum

Þrátt fyrir að meira en ár er liðið frá síðustu sendingu kjúklingakjöts frá Úkra...

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn
Fréttir 16. júlí 2024

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn

Olil Amble og Bergur Jónsson á Syðri-Gegnishólum hafa náð einstökum árangri í hr...

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...