Kryddjurtir sem rotvörn
Leitað er leiða til að nota rotvörn unna úr jurtum í stað hefðbundinna rotvarnarefna og koma þannig til móts við óskir neytenda.
Gróðrarstöðin Ártangi er í samstarfi við Matís um ráðgjöf, mælingar og vöruþróun í sambandi við kryddjurtir.
Segir í lýsingu verkefnisins að stefnt sé að framleiðslu markaðsvara úr kryddjurtum til hagnýtingar í matvælaiðnaði, í þeim tilgangi að ná fram ásættanlegu geymsluþoli án hefðbundinna rotvarnarefna. Reiknað sé með að matvælaiðnaðurinn sjái tækifæri í því að nota rotvörn unna úr jurtum í stað hefðbundinna rotvarnarefna og komi þannig til móts við óskir neytenda.
Nýta virkni kryddjurtanna
„Algengar kryddjurtir eru basilíka, mynta, kóríander, steinselja og timjan,“ segir Ólafur Reykdal, verkefnastjóri hjá Matís. Kryddjurtir séu ekki aðeins eftirsóttar til að gefa matnum bragð, heldur veiti þær einnig ýmis hollustuefni eins og vítamín og steinefni.
Athyglisvert sé að meðal hollustuefnanna eru andoxunarefni sem skipti máli fyrir varnarkerfi líkamans. Þá sporni andoxunarefni gegn myndun skaðlegra radikala og dragi úr oxun í líkamanum.
Hann segir að huga þurfi sérstaklega að geymslu kryddjurta þar sem þær þoli illa kælingu og kryddjurtir í pottum þurfi vökvun.
„Hjá Gróðrarstöðinni Ártanga eru nú ræktaðar kryddjurtir allan ársins hring og eru jurtirnar seldar í pottum í verslunum. Hugað er að því að nýta umframframleiðslu til vinnslu á matvörum eins og pestói, kryddsmjöri og olíum til kryddlagningar.
Jafnframt er leitað nýrra tækifæra, meðal annars er stefnt að því að framleiða nýjar vörur sem nýta virkni kryddjurtanna til að auka geymsluþol matvæla. Þessar hugmyndir eru studdar af erlendum rannsóknum og því var sótt um stuðning til Matvælasjóðs til að vinna þróunarvinnu og var styrkur veittur,“ segir Ólafur. Stefnt sé að framleiðslu markaðsvara úr kryddjurtum til hagnýtingar í matvælaiðnaði, í þeim tilgangi að ná fram ásættanlegu geymsluþoli án hefðbundinna rotvarnarefna (E-efna).
Matvælaiðnaðurinn sýni áhuga
„Neytendur hafa vaxandi áhuga á matvælum með náttúrulegum
efnum í stað tilbúinna aukefna.
Reiknað er með að matvælaiðnaðurinn sjái tækifæri í því að nota rotvarnir unnar úr jurtum í stað hefðbundinna rotvarnarefna og komi þannig til móts við óskir neytenda.
Jafnframt væri verið að auka hollustugildi (andoxunarefni, vítamín) matvaranna,“ segir Ólafur og bætir við að gert sé ráð fyrir að hægt væri að auka framboð á matvörum án aukefna til muna ef náttúruleg rotvörn úr kryddjurtum yrði nýtt.
Reiknað er með að kryddjurtaverkefni Ártanga í samstarfi við Matís ljúki seint á árinu.