Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Stóðhesturinn Skýr frá Skálakoti með Jakobi Svavari Sigurðssyni og Guðmundi Viðarssyni, ræktanda sínum. Myndin er tekin á Landssýningu 2020 þegar Skýr hlaut Sleipnisbikarinn.
Stóðhesturinn Skýr frá Skálakoti með Jakobi Svavari Sigurðssyni og Guðmundi Viðarssyni, ræktanda sínum. Myndin er tekin á Landssýningu 2020 þegar Skýr hlaut Sleipnisbikarinn.
Mynd / Louisa Lilja
Fréttir 3. nóvember 2022

Kynbótamat hrossa og hryssur til afkvæmaverðlauna haustið 2022

Höfundur: Elsa Albertsdóttir

Kynbótamat hefur verið uppreiknað fyrir íslensk hross og vistað inni í Upprunaættbók íslenska hestsins, WorldFeng (WF).

Alls fengu 479.960 einstaklingar mat en það eru öll þau hross sem skráð eru í WF með gilt einstaklingsnúmer, þar sem kemur fram land, ár og kyn. Útreikningar kynbótamatsins byggja á kynbótadómum sem töldu að þessu sinni 35.091 og alls var tekið tillit til 1.000 arfgerðagreindra hrossa fyrir gangráðinum. Dómar skiptast þannig eftir löndum: Ísland 21.949, Svíþjóð 4.370, Þýskaland 3.643, Danmörk 2.744, Noregur 1.246, Austurríki 374, Finnland 291, Holland 298, Bandaríkin 226, Kanada 117, Sviss 102, Bretland 39 og Færeyjar 9.

Álfamær frá Prestsbæ.
Mynd / ÓÖJ

Kynbótamatið dregur saman allar tiltækar tölulegar upplýsingar frá kynbótadómum allra hrossa í stofninum í heildarniðurstöðu sem endurspeglar gildi hrossa til framræktunar. Gildið ræðst af röðun hrossa út frá því hversu mikils er að vænta að þau geti lagt af mörkum í ræktunarstarfinu. Skalinn miðar við 100 sem meðalgildi og eitt staðalfrávik er 10 stig. Allur hrossastofninn dreifist um 6 staðalfrávik eða frá u.þ.b 70 til 130, með einungis örfá hross utan þeirrar spannar. Almennt er ekki ráðlegt að nota hross til undaneldis sem eru undir 100 í aðaleinkunn kynbótamats, þar sem þeirra framlag er líklegt til að vera í neikvæða átt, miðað við opinbert ræktunarmarkmið íslenska hestsins. Í þessu samhengi er þó afar mikilvægt að hafa öryggi kynbótamatsins til hliðsjónar, enda er það misjafnt frá hesti til hests. Því meiri upplýsingar sem eru tiltækar um foreldra, afkvæmi og ættingja, því öruggara er matið. Þegar öryggi kynbótamats er undir 60% ber að taka þeirri spá með fyrirvara. Því hærra sem öryggi matsins er því lægra er staðalfrávik matsins jafnan. Upplýsingar um bæði staðalfrávik og öryggi koma fram í WF. Hross með 118 í aðaleinkunn kynbótamats, með 5 í staðalfrávik og 87% öryggi þýðir einfaldlega að hrossið hefur með 87% öryggi kynbótagildi milli 113 og 123 stig. Það er því sannarlega afbragðs undaneldisgripur og tilheyrir hópi u.þ.b. 15% efstu hrossa í hrossastofninum hvar sem er í heiminum

Lýdía frá Eystri-Hól.
Mynd / ÓÖJ
Leiðréttingar fyrir kerfisbundnum umhverfisáhrifum

Aðferðin sem notuð er til að reikna út kynbótamat gengur jafnan undir heitinu BLUP aðferðin en hún er gríðarlega viðfangsmikil og öflug aðferð. BLUP gildin (þ.e. kynbótamatið) endurspegla erfðafræðilega getu hestanna, í samanburði við öll önnur hross innan stofnsins. Þetta innifelur jafnframt að tekið er tillit til kerfisbundinna umhverfisþátta sem hafa áhrif á frammistöðu gripanna. Með því að leiðrétta fyrir þessum umhverfisþáttum eru dómarnir gerðir samanburðarhæfir milli einstaklinga innan stofnsins.

Leiðrétt er fyrir þremur umhverfisáhrifum en það er aldur og kyn einstaklings og sýningarárið þegar hross hlýtur sinn hæsta aldursleiðrétta dóm. Varðandi aldur og kyn einstaklingsins þá hafa þessir þættir áhrif á frammistöðu hrossa, t.d. eru stóðhestar kerfisbundið fyrri til en hryssur og hrossin verða kerfisbundið betri með auknum aldri. Þar sem dómstörfin þróast ár frá ári og samanburðarhópurinn verður sífellt betri, verður jafnframt til kerfisbundinn munur á niðurstöðum milli ára, þ.e. sýningarára.

Stöðlun og erfðaframfarir

Niðurstöður kynbótamatsins er staðlað út frá þeim hrossum sem fæðast á Íslandi síðastliðin 10 ár og í ár er tala þeirra 56.597. Þessi tíu ár endurspegla meðalkynslóðabil í hrossastofninum. Með þessu móti er gert ráð fyrir erfðaframförum í stofninum enda gengið út frá því að framför sé í stofninum með ræktun hverrar kynslóðar. Stöðlunin miðar eins og áður sagði við að meðalgildi kynbótamats sé 100 stig og hvert staðalfrávik 10 stig.

Það geta alltaf orðið einhverjar breytingar í kynbótamati einstakra hrossa einatt út af þessari stöðlun þar sem hún veltur fram eitt ár í senn, t.d. ef engar nýjar upplýsingar bætast við þá er tilhneiging að kynbótamat læki eilítið enda hrossið að eldast og ræktunin ætti sífellt að skila erfðafræðilega betri einstaklingum. Einstaklingar með miklar upplýsingar að baki sér og öruggt mat breytast þó jafnan lítið sem ekki neitt. Helstu breytingar í kynbótamati hrossa eru jafnan út frá frammistöðu þeirra sjálfra og skylduliðs. Það ber þó einnig að benda á að kynbótamatið er röðun hrossa og geta því einhverjar smávægilegar breytingar orðið á kynbótamati einstaklinga því þegar einhver hross fara niður í röðun, þýðir það jafnframt að önnur hross raðast hærra owg hljóta fyrir vikið hærra kynbótamat en áður.

Mynd 1: Dreifing á kynbótamati allra hrossa í íslenska hrossastofninum. Kynbótamat 99,8% allra hrossa liggur á milli 70 og 130 stig. Guli kassinn vísar til dæmis í textanum þar sem samband kynbótamats, öryggis og staðalfráviks er skýrt.

Þróun á kynbótamati

Árið 2020 voru gerðar talsverðar breytingar á kynbótamatinu eins og áður hefur verið fjallað um [sjá 8. tbl. Bændablaðsins 2020]. Þá varð mikil aukning í fjölda þeirra hryssna sem hlutu afkvæmaverðlaun um haustið en þær voru þá alls 31 talsins. Stöðugt er verið að vinna að því að bæta kerfið þannig að það þjóni tilgangi sínum sem allra best og með öruggasta hætti.

Við síðustu breytingar, vorið 2022, var hætt að leiðrétta fyrir því landi sem hrossið er sýnt í, en það hafði verið gert í áratugi á undan. Þrátt fyrir að það séu marktæk áhrif sýningarlands var ekki lengur þörf að meðhöndla sýningarlandið sem kerfisbundinn umhverfisþátt, enda umhverfisaðstæður kynbótasýninga orðnar afar staðlaðar.

Breytingar á kynbótamati einstakra hrossa voru hvað mestar hjá stóðhestum sem áttu mörg afkvæmi dæmd í sama landi.

Hér má sjá Elísu frá Feti sem stendur efst hryssna fyrir afkvæmi. Hún er með afkvæmi sínu, Eyvöru frá Rauðalæk, sem er undan Arði frá Brautarholti en Elísa er fylfull við Sóloni frá Þúfum. Hjá þeim er Guðmundur Friðrik Björgvinsson, ræktandi og annar eigandi hryssunnar.

Einhverjir stóðhestar voru líklega ofmetnir í núverandi kynbótamati í alþjóðlegum samanburði en aðrir að sama skapi vanmetnir. Þegar á heildina er litið varð ekki veruleg breyting á röðun hrossa sem sýnd eru í sama landi en breytingar urðu á alþjóðlegri röðun. Þessi síðasta breyting virðist þó hafa haft áhrif á fjölda hryssna sem hljóta afkvæmaverðlaun nú í ár á Íslandi. Miðað við þær upplýsingar sem eru í WF eru það alls 20 hryssur sem hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Viðmiðið er að lágmarki 116 stig í aðaleinkunn kynbótamats eða aðaleinkunn án skeiðs og eiga að minnsta kosti 5 dæmd afkvæmi.

Röðun hryssna er samkvæmt aðaleinkunn kynbótamats.

Enn og aftur þarf að rýna til gagns og jafnvel endurskoða gildandi viðmið. Samræming varð á veitingu viðurkenning fyrir afkvæmahross árið 2019 innan aðildarland FEIF þannig að hún er hvar vetna með sömu viðmið. Heiðursverðlaun fyrir afkvæmi er sannarlega mikil viðurkenning og á að endurspeglast í gildi hrossa til framræktunar og þar með frammistöðu afkvæma.

Meðfylgjandi eru einnig töflur yfir þau hross, stóðhesta og hryssur, sem hæst eru í kynbótamati á Íslandi.

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...

Snjallsímar bannaðir í grunnskóla
Fréttir 15. nóvember 2024

Snjallsímar bannaðir í grunnskóla

Frá því í haust hefur nemendum Kirkjubæjarskóla verið óheimilt að vera með snjal...

Stórtæk ræktun á Hrym í Búðardal
Fréttir 15. nóvember 2024

Stórtæk ræktun á Hrym í Búðardal

Ræktunarstöð fyrir lerkitegundina Hrym hefur verið stofnsett í Búðardal þar sem ...

Fjögur landeldisfyrirtæki í Bændasamtökunum
Fréttir 14. nóvember 2024

Fjögur landeldisfyrirtæki í Bændasamtökunum

Deild landeldis innan Bændasamtaka Íslands var stofnuð sumarið 2022. Fjögur land...

Bændur læra af hver öðrum
Fréttir 14. nóvember 2024

Bændur læra af hver öðrum

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur undanfarin tvö ár staðið fyrir stýrð...

Skipulega haldið utan um feldfjárrækt í Fjárvís
Fréttir 14. nóvember 2024

Skipulega haldið utan um feldfjárrækt í Fjárvís

Nýverið bárust tíðindi af því að verið væri að setja inn upplýsingar um feldfé í...