Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fréttir 27. nóvember 2019
Lag fyrir endurreisn íslenska vaðmálsins
Höfundur: smh
Herrafataverzlun Kormáks & Skjaldar stefnir á að bjóða upp á fjórar jakkafataútgáfur úr íslenskri ull (íslenskt tweed) fyrir jólin. Á prjónunum er einnig að hanna vörur úr ull af íslensku forystufé, til dæmis sixpensara.
Vaðmál, íslenskur ullarvefnaður, var frá þjóðveldisöld í margar aldir aðalhráefnið til heimilisiðnaðar og fatagerðar, auk þess að vera ein helsta útflutningsvara Íslendinga. Fatakaupmennirnir Kormákur Geirharðsson og Skjöldur Sigurjónsson segja að um nokkurra áratuga skeið, frá fyrstu árum síðustu aldar, hafi nokkuð blómlegur ullarvöruiðnaður verið rekinn á Íslandi og allt fram á níunda áratug. Til að mynda hafi Gefjun á Akureyri framleitt nýtískulegan jakkaföt úr íslensku vaðmáli á áttunda áratugnum. En með uppgangi ódýrari efna og svokallaðra gerviefna hafi vinnslu og verkkunnáttu hnignað sem endað hafi með því að slík framleiðsla hvarf í landinu. Slíkt hnignunarskeið hafi líka átt sér stað á Bretlandseyjum, þar sem tweed-fatnaðurinn – sem fataframleiðslustíll – er upprunninn. Þar hafi leiðin til endurreisnar falist í því að færa hinn íhaldssama stíl meira í átt að straumum og stefnum tíðarandans.
Tíðarandinn í liði með náttúrulegum efnum
Kormákur telur að nú sé lag fyrir endurreisn íslenska vaðmálsins. „Eðlilega fóru fatahönnuðir meira að nota gerviefnin þegar þau komu til sögunnar með ýmsa möguleika, en núna virðist bylgjan vera að sveiflast meira í átt að notkun á náttúrulegum efnum – með eins konar grænum áherslum og umhverfisvænni hugsun í þessum geira. Það þarf hins vegar að styðja betur við ullarvinnsluhluta sauðfjárræktarinnar í landinu til að þetta verði alvöru grein með öllum þeim tækifærum sem eru nú til staðar með hráefni eins og ullina,“ segir Kormákur og Skjöldur bætir við að í raun sé það frekar dapurleg staðreynd að ullarfatnaður á Íslandi hafi á undanförnum árum og áratugum nánast eingöngu verið lopapeysur, vettlingar og húfur. Verðið sem bændur fá fyrir ullina sé skammarlega lágt.
Þeir segjast hafa látið vinna fyrir sig prufur af íslensku tweedi og borið þær undir starfsmenn hjá skoska fyrirtækinu Harris Tweed, sem þeir hafa átt í viðskiptum við og sérhæfir sig í tweed-fatnaði. „Þeir héldu varla vatni af hrifningu yfir þessum prufum,“ segir Kormákur. „Ekki síst prufunum með ullinni af forystufénu sem er enn fíngerðari,“ bætir hann við.
Skjöldur segir að það sé líka ákall eftir meira framboði af flíkum sem hægt sé að segja að sé beint frá býli – það eigi ekki bara við um mat. „Það gera sér allir grein fyrir því í dag að slíkur fatnaður er miklu umhverfisvænni að svo mörgu leyti. Hann þarf minni þvott og svo er framleiðslan líka umhverfisvæn. Það þarf minna vatn, það þarf ekki að nota óumhverfisvæn litarefni og ekki þarf heldur að drepa dýrið til að nýta ullina af því. Fólk vill fá að heyra söguna um slíka framleiðslu – og það vill í auknum mæli eignast færri en betri flíkur.“ Hann segir að sagan í kringum forystuféð sé líka að mörgu leyti ónýttur möguleiki til markaðssetningar á afurðum af því. Fatnaður – og aðrar afurðir af forystufé – sé auðvitað alltaf dýrari. En ef þú átt sixpensara af forystufé þá geturðu hins vegar bókað að þú ratar alltaf heim,“ segir Kormákur og brosir.
Þeir segja að byrjunin sé alltaf erfiðust og hugmyndin um íslenska tweedið hafi verið að gerjast í hausnum á þeim í fjögur til fimm ár. Spurningin „af hverju ekki íslenskt tweed?“ hafi sífellt orðið ágengari og þeir mættu aldrei andstöðu þó að ýmis úrlausnarefni hafi látið á sér kræla. Ullarvinnsluvélar hjá samstarfsaðilum þeirra erlendis hafa til dæmis átt í ákveðnum erfiðleikum með að vinna íslensku ullina vegna þess hversu feit hún er. Þá sé togið lengra, sem gangi illa í hinar erlendu vélar. Það sé vissulega hægt að láta vinna þetta hér á Íslandi hjá Ístex, en þá verði þráðurinn alltaf aðeins þykkari.
Ekki sé æskilegt að hreinsa fituna meira úr ullinni því það geti bæði gert vinnsluna óumhverfisvæna, auk þess að spilla verðmætum eiginleikum hennar. Þeir segjast þó ekki hafa stórvægilegar áhyggjur af þessum atriðum, það finnist lausnir með góðum vilja.
„Að öllum líkindum byrjum við á því að gera íslenskan sófa úr íslenska tweedinu – sem væri hönnunarvara og yrði svo sýnd á Hönnunarmars,“ segir Skjöldur. „Það verður líklega samstarfsverkefni með Epal, en þeir voru svo hrifnir af þessari hugmynd okkar um íslenska tweedið og við höfum fengið góðar undirtektir hjá fleirum sem eru í þessum húsgagnabransa,“ bætir Kormákur við.“
Tweed-fatnaður í Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar.
Jakkaföt í boði úr íslensku tweedi
„Við stefnum á að vera með fjórar útgáfur af jakkafötum úr íslensku tweedi öðru hvorum megin við áramótin. Það verður þá saumað inn í snið sem við erum með fyrir í okkar línu. Síðan er áhugi hjá okkur að vinna sameiginlega línu með skosku samstarfsaðilum okkar í Harris Tweed – þar sem íslenska ullin kæmi við sögu,“ segir Kormákur. „Varðandi tweedið af forystufénu þá reiknum við ekki með að það verði farið í framleiðslu á stærri flíkum úr því – í það minnsta ekki í byrjun – af því það er svo dýrt. Við ætlum því að prófa okkur áfram með sixpensara og síðan langar okkur að klæða vasapela í þannig flíkur,“ segir Skjöldur.
„Við erum þakklátir fyrir einlægan áhuga Daníels [Hansen] á Fræðasetrinu um forystufé á þessum málum. Hann lét útbúa þessar prufur sem við svo keyptum af honum. Hann mun vafalaust reynast okkur vel þegar kemur að því að eiga í samskiptum við bændurna sjálfa því hann þekkir þá flesta auðvitað meira og minna. Við gætum þurft að fara að skipta okkur eitthvað af ræktunarstarfinu og litaframboðinu á ullinni í framtíðinni,“ segir Kormákur.
Þeir segja það merkilegt hversu fjölbreytt litbrigði komi fram í íslenska sauðfénu sem geti boðið upp á ýmsar skemmtilegar útfærslur í úrvinnslunni – ekki síst í svokölluðum jarðarlitum.
Sýnishorn úr nýju reiðlínunni.
Ný reiðfatalína kynnt
Á dögunum kynnti Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar nýja reiðfatalínu sem tileinkuð er hinni miklu hefð útreiða og hestamennsku á Íslandi. Að sögn þeirra Kormáks og Skjaldar var lögð sérstök áhersla á að hanna hagnýtan, þægilegan en þó fallegan reiðfatnað. Þetta sé klæðnaður bæði fyrir konur og karla, meðal annars tveir jakkar í samstarfi við 66° Norður. Fimm jakkar eru auk þess í línunni og tvær tegundir af reiðbuxum sem þeir voru búnir að láta hestamenn prófa og ýmsir aðrir aukahlutir. „Einhverjir gætu haldið að þetta væri of fínn klæðnaður til að klæðast á hestbaki, en raunin er alls ekki sú. Tweedið til dæmis er þess eðlis að þú getur farið í reiðtúr í þannig fatnaði og svo beint á fund á eftir án þess að verða til vandræða þar vegna lyktar,“ segir Skjöldur. „Þróunin virðist vera sú að hestamenn ríða oftar út í aðeins fínni reiðklæðum en áður var,“ bætir Kormákur við.