Land og skógur
Þann 10. mars samþykkti ríkisstjórn Íslands tillögu matvælaráðherra um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ný stofnun verði sett á fót undir heitinu Land og skógur.
Frumvarpið fer nú til þingflokka stjórnarflokkanna til umsagnar og verður að lokum lagt fyrir Alþingi.
Í tilkynningu matvælaráðuneytisins segir að áfram muni sérstök lög gilda um landgræðslu annars vegar og skóga og skógrækt hins vegar. „Báðar stofnanirnar hafa stórt og vaxandi hlutverk á sviði umhverfis- og loftslagsmála og hafa verið í samstarfi á fjölmörgum sviðum. Gæti sameining stofnananna því eflt þjónustu og ráðgjöf til bænda og annarra viðskiptavina.“
Talið er að heildstæð nálgun á nýtingu lands geti flýtt framgangi verkefna, til dæmis í þágu loftslagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni. Tækifæri verða einnig til að hagnýta gögn og rekstur landupplýsinga til öflugra rannsóknarstarfs.
Forsaga sameiningarferilsins nær aftur til byrjun febrúar á síðasta ári, þegar nýtt matvælaráðuneyti varð til. Þá færðust Landgræðslan og Skógræktin þangað yfir úr umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.
Síðasta vor kynnti ráðuneytið svo skýrslu starfshóps um forathugun á sameiningu.
Í lok ágúst gaf Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra út fyrstu sameinuðu stefnuna í landgræðslu og skógrækt, Land og líf, auk aðgerðaráætlunar.