Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Keli vert (Þorkell Sigurmon Símonarson), segir endalausa möguleika í að selja ferðamönnum landbúnaðarafurðir, en kerfið hafi verið tregt til að taka þátt í þeim dansi og viðbrögðin sein. Landbúnaðurinn sé í svipaðri stöðu hvað það varðar í dag og ferðaþjó
Keli vert (Þorkell Sigurmon Símonarson), segir endalausa möguleika í að selja ferðamönnum landbúnaðarafurðir, en kerfið hafi verið tregt til að taka þátt í þeim dansi og viðbrögðin sein. Landbúnaðurinn sé í svipaðri stöðu hvað það varðar í dag og ferðaþjó
Mynd / HKr.
Fréttir 26. febrúar 2016

Landbúnaðurinn hefur ekki fylgt ferðaþjónustunni eftir

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Gistihúsið Langaholt í Staðarsveit á Snæfellsnesi hefur sérhæft sig svolítið í fiskréttum. Hefur hróður Kela verts, Þorkels S. Símonarsonar, borist víða og nýtur hann frábærra samskipta við sjómenn, fiskmarkaði og útgerðarmenn á Snæfellsnesi. Hann segir þó skemmtilegt að vita til þess að nú sé að verða smá vakning í landbúnaðinum til að sinna ferðaþjónustunni, en þar þurfi að gera miklu betur. 
 
Í Langaholti er fullvinnslueldhús. Fiskurinn er keyptur heill og flakaður á staðnum og beinin soðin í súpukraft. Þannig kaupir Keli á fjórða tonn af fiski á ári á fiskmarkaði. 
 
Keli segir að heimavinnsla á kjöti og öðrum afurðum landbúnaðarins sé enn af mjög skornum skammti á Snæfellsnesi.
„Allavega ekki í þeim mæli sem veitingabransinn þarf. Þetta er þó allt í rétt átt.“
 
Of lítið framboð og stopul vinnsla
 
Hann segir að gallinn við heima­vinnsluna fram til þessa sé að flestir séu að vinna vörur í mjög litlu magni og í stuttan tíma á hverju ári. Þetta sé í raun nákvæmlega eins og ferðaþjónustan var rekin á bernskuárum sínum. Ferðaþjónustan hafi hins vegar verið að þróast hratt og þeir sem eru með heimavinnslu hafi ekki skoðað nægilega vel hennar þarfir við breyttar aðstæður. 
 
Kjötvinnslan of mikið innstillt á þarfir stórmarkaða
 
Að sögn Kela þekkja kunningjarnir og bændurnir í nágrenninu vel til gagnrýni hans á landbúnaðarkerfið sem slíkt.
 
 „Ef maður persónugerir kerfið, þá hefur það þumbast dálítið við að líta á þennan markað og tækifærin sem þar felast. Kjötframleiðslan í landinu er afskaplegalega mikið innstillt á hillupláss í stórmörkuðunum. Einnig neysluvenjur Íslendinga sem þjóðar. Nú erum við komin með yfir milljón ferðamenn á ári og þar er fólkið sem getur og hefur efni á að borða dýru og fínu bitana. Landbúnaðarkerfið hefur ekki kosið að líta í þá átt. Sem dæmi er mjög stór munur á því hvernig fiskiðnaðurinn hefur horft á ferðaþjónustuna. Sú grein njóti þess nú að hafa verið með öðruvísi markaðsstarf áratugum saman og við að þjónusta fólk af ólíkum uppruna víða um heim.“ 
 
Hákarlinn sannar hvað hægt er að gera
 
„Fyrir tuttugu árum hefði enginn trúað mér að það kæmu milljón túristar til Íslands og hver einasti þeirra teldi sig ekki vera mann með mönnum nema hafa prófað að smakka hákarl. Slík fullyrðing hefði þótt fráleit fyrir nokkrum áratugum. Ef eitthvað er séríslenskt vekur það forvitni. Þetta sannar hákarlinn. Þótt okkur hafi kannski þótt hann óað­laðandi og vart bjóðandi, þá er bara spurningin að gera hann spennandi og það hefur tekist. 
 
Þessum óskum hefur sjávarútvegurinn  og ferðaþjónustan mætt. Ég hef því sagt að ef landbúnaðurinn hefði sýnt sama lit við að sinna markaðnum, þá væru svið í jafn miklum metum hjá ferðamönnum og hákarlinn.“ 
 
Tækifærin liggja í að sinna veitingahúsunum
 
„Menn hafa bara ekki nýtt sér tækifærin. Flest veitingahús séu ekki með fullvinnslueldhús og þurfi því meira unna vöru en heila skrokka. Þessi veitingahús þurfi helst að ákveða í dag kvað þau ætli að hafa á matseðlinum eftir hálft, eða heilt ár. Þar bregst landbúnaðurinn, því veitingahúsin geti ekki treyst því að fá nýunnið kjöt eða þróaðar kjötvörur þegar þau þurfi á því að halda. Þörfin og magnið sé samt stöðugt að aukast og menn neyðast þá til að leita til útlanda eftir slíku hráefni. 
 
Það er vissulega mikil gerjun á sumum sviðum landbúnaðar. Nú er t.d. íslenskt bygg í boði á öðrum hvorum matardiski á veitingastöðum. Þetta gerðist í kjölfar þess að Eymundur í Vallanesi var búinn að reyna í mörg ár að fá okkur til að prófa íslenskt bygg í okkar matargerð. Nú borða erlendir túristar íslenskt bygg mörgum sinnum meðan þeir staldra hér við og Eymundur getur selt sína uppskeru. Menn þurfa því að vera vakandi yfir möguleikunum. Við getum selt túristunum okkar nánast allt. Við þurfum þó að gera það vel og ekki með lakari hætti en gert er á öðrum stöðum í heiminum.“ 
Eigum endalausa möguleika
 
„Við eigum endalausa möguleika, en landbúnaðarkerfið sem slíkt hefur ekki viljað dansa með. Veitingamenn nenna ekkert að taka þátt í pólitískum hráskinnaleik hvað þetta varðar og fara bara auðveldustu leiðina. Ef það er erfitt að fá þá vöru sem óskað er á Íslandi þegar á henni þarf að halda, þá taka þeir bara innfluttar vörur í staðinn. 
 
Þróunin er samt að byrja í rétta átt. Það eru útlendingarnir sem munu borða smjörfjallið okkar og borða dýru bitana, á meðan við Íslendingarnir tökum bara það ódýrasta til að halda okkar heimili.
 
Þegar maður reynir að ræða þessi mál við þá sem hafa eitthvað með kerfið að gera, þá grafa menn sig fljótt í skotgrafir og koma með upphrópanir. Oft líka án þess að vilja setja sig inn í málin. Veitingamenn eru bara að reyna að sinna sínu starfi. Þeim er umhugað um að koma með nýjungar og ef vel tekst til þá verður það vinsælt. Sama má gera úr öllu okkar hráefni eins og sviðunum. Ef þau eru hins vegar ekki til þegar á þarf að halda, þá seljast þau auðvitað ekki.“ 
 
Bráðum borða túristar meira en innfæddir
 
„Ferðamenn eru alltaf til í að prófa skrítinn mat og við getum gert miklu meira ef við leggjum okkur eftir því. Bráðum verður það svo að túristarnir borða meiri mat hér á landi en þjóðin. 
 
Þó ég segi þetta, þá eru fyrirtæki í landbúnaðinum sem eru að gera mjög góða hluti. Þeir hjá Fjallalambi fyrir austan eru t.d. að standa sig feikilega vel og með afburða þjónustu miðað við aðrar afurðastöðvar,“ segir Keli vert á Snæfellsnesi.
 
− Sjá viðtal við Kela á bls. 26-28 í nýjasta tölublaði Bændablaðsins.

3 myndir:

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...