Landhelgisgæslan í hrossasmölun á Hrunamannaafrétti
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar fékk frekar óvenjulega beiðni í upphafi ársins frá Matvælastofnun en beiðnin fólst í því að smala hross á Hrunamannaafrétti.
„Já, það er rétt, okkur barst ábending um að árum saman hafi það tíðkast að uppi á Hrunamannaafrétti gengi hrossastóð yfir veturinn án fóðrunar og kæmi síðan illa til reika til byggða að vori. Til að sannreyna þetta var haft samband við Landhelgisgæsluna og hún beðin um að hafa auga með afréttinum í næsta skipti sem þeir ættu erindi um þessar slóðir. Það gekk fljótt og vel og gæslan svaraði með mynd og staðsetningu á hrossastóð, sem virtist vera um 20 hross. Haft var samband við eiganda sem fúslega smalaði hrossunum til byggða. Ekki voru gerðar athugasemdir við holdafar hrossanna,“ segir Gunnar Þorkelsson, héraðsdýralæknir Suðurumdæmis, aðspurður hvort það væri rétt að stofnunin hefði kallað þyrluna til í verkefnið.