Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Hér eru Peder Philipp og Gitte að halda erindið sitt.
Hér eru Peder Philipp og Gitte að halda erindið sitt.
Mynd / Louise Nathansen Thuesen frá SEGES
Fréttir 14. mars 2017

Langstærsta fagráðstefna innan nautgriparæktar í Norður-Evrópu

Höfundur: Snorri Sigurðsson sns@seges.dk Sviðsstjóri mjólkurgæðasviðs Dýralækninga- og gæðadeild SEGES í Danmörku
Dagana 27. og 28. febrúar sl. fór fram hið árlega fagþing nautgriparæktarinnar í Herning í Danmörku, betur þekkt sem Kvægkongres. Þetta fagþing hefur verið afar umfangsmikið undanfarin ár og er nú langstærsta fagráðstefna innan nautgriparæktar í Norður-Evrópu. 
 
Í ár tóku alls 2.769 manns þátt í ráðstefnunni og flestir þátttakenda voru kúabændur en auk þeirra að sjálfsögðu ráðunautar, dýralæknar og fyrirtækjafólk. Þá sóttu ráðstefnuna margir erlendir gestir og þar af var m.a. nokkur fjöldi Íslendinga sem sótti fagþingið heim. 
 
Fagþingið var byggt upp með svipuðum hætti og undanfarin ár með því að vera með margar ólíkar málstofur á sama tíma, auk þess að vera aðalfundur hagsmunasamtakanna Dansk Kvæg, sem eru samtök allra fagaðila í nautgriparækt í Danmörku.
 
16 manna stjórn Dansk Kvæg
 
Á Kvægkongres fara fram kosningar á hluta af stjórnarmönnum Dansk Kvæg en í stjórninni er hvorki fleiri né færri en 16 manns! Skýringin felst í því að Dansk Kvæg eru heildarsamtök allra aðila sem tengjast nautgriparækt með einum eða öðrum hætti. Í stjórn þess sitja 2 fulltrúar frá Markaðsráði nautgripakjöts, 5 frá Bændasamtökunum, 5 frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, 1 frá Búnaðarsamtökunum, 2 frá Félagi fjölskyldubúa og 1 frá Viking Danmark sem er rekstraraðili nautastöðvanna og sæðingakerfis landsins. Þá hafa Félag holdanautabænda og Félag lífrænna ræktenda hvort sinn áheyrnarfulltrúann. Eins og hér má sjá koma að stjórninni fjölmargir aðilar og því er starfssviðið afar breitt.
 
Erfitt ár að baki
 
Fagþingið hófst með sameiginlegu erindi stjórnarformanns Dansk Kvæg, Peder Philipp, og framkvæmdastjóra Dansk Kvæg, Gitte Grønbæk. Í erindum sínum fóru þau yfir liðið starfsár sem var afar erfitt hjá dönskum kúabændum vegna lágs afurðastöðvaverðs. 
 
Það sem hefur þó hjálpað dönsku kúabændunum er mikil og góð afurðasemi kúnna, auk þess sem bústærð danskra búa er sú næststærsta í Evrópu sem hefur gert dönsku kúabúin samkeppnishæfari en bú t.d. í helstu nágranna- og samkeppnislöndum Danmerkur.
 
Í dag er svo staðan allt önnur enda afurðastöðvaverðið nú allhátt. Peder benti á að vissulega hefði árið reynst þarlendum kúabændum erfitt, en margt jákvætt hefði þó komið í ljós á árinu. Þrátt fyrir lágt afurðastöðva­verð árið 2016 þá gekk kúabúnum að meðaltali mun betur en væntingar stóðu til. Með öðrum orðum þá tókst mörgum kúabændum að draga enn frekar úr framleiðslukostnaði búa sinna þegar afurðastöðvaverðið var sem lægst.
 
Mestu munaði um mikla aukningu meðalafurða, en meðalafurðirnar eru í dag komnar í um 10.500 kg. Sé horft til hreinna Holstein hjarða þá eru meðalafurðirnar komnar yfir 11 tonn á árskúna. Þá hafa danskir kúabændur stækkað bú sín verulega á liðnum árum og er meðalbúið nú með um 190 árskýr.
 
Þegar horft er til framleiðslukostnaðar mjólkur í Danmörku þá hefur hann lækkað nánast stöðugt ár frá ári. Sé horft til síðustu þriggja ára hefur framleiðslukostnaðurinn lækkað að meðaltali um 49 danska aura á hvert framleitt kíló mjólkur. Þetta eru um 7,4 íslenskar krónur á þremur árum og það á sama tíma almennt verðlag hefur hækkað um 2,2% í landinu.
 
Þegar þessar tölur eru greindar nánar þá er stór hluti skýringarinnar aukin afköst búanna, þ.e. lægri fastur kostnaður á hvert framleitt kíló mjólkur og skýrist það bæði af nythæðinni en einnig bústærðinni og auknum afköstum vinnuaflsins.
Sveiflur fram undan
 
Peder lagði einnig áherslu á það að kúabændur landsins yrðu að búa sig undir að afurðastöðvaverðið myndi sveiflast mikið í framtíðinni, hjá því yrði ekki komist á hinum frjálsa markaði. Þegar afurðastöðvaverðið væri hátt væri auðvitað alltaf gott og gaman að vera kúabóndi en þegar það er lágt þarf að leita allra leiða til þess að draga úr framleiðslukostnaðinum eins og hægt væri. Þar gætu danskir kúabændur gert enn betur en þeir gera í dag. Meðaltalstölur sýni að enn sé þónokkur munur á framleiðslukostnaði á milli danskra kúabúa. Afar mikilvægt væri fyrir hina dönsku kúabændur að nýta ytri ramma framleiðslunnar eins vel og hægt væri, þ.e. lækka enn frekar hlutdeild fasts kostnaðar á bak við hvert framleitt kíló mjólkur.
 
Lífræn kúabú með mikinn hagnað
 
Samkvæmt uppgjöri SEGES á búreikningum vegna ársins 2016 þá voru mörg bú rekin með miklu tapi og var meðaltalsbúið í hefðbundinni mjólkurframleiðslu með um hálfa milljón danskra króna í tap á árinu að teknu tilliti til launa eigenda. Tap þetta svarar til um 7,6 milljóna íslenskra króna og þýðir í raun að kúabændurnir sjálfir gátu nánast ekki fengið nein laun á árinu!
Þau kúabú sem voru hins vegar með lífrænt vottaða mjólkurframleiðslu voru rekin með myndarlegum hagnaði, eftir greiðslu launa til eigenda, eða hátt í 8 milljón króna hagnaði. 
 
Lífrænt vottuð mjólk hefur verið afar hátt verðlögð undanfarið og fengu dönsk kúabú að meðaltali 51,3 íslenskar krónur á hvert framleitt kíló mjólkur árið 2016 en hin hefðbundnu kúabú fengu hins vegar ekki nema 32,5 krónur að meðaltali á sama tíma.
 
„Kom með“ 1,7 milljarða með sér
 
Ráðherra umhverfis- og matvælamálefna, Esben Lunde Larsen, var sérstakur gestur Kvægkongres í ár og hélt áhugavert erindi um sýn hans á komandi misseri. Esben Lunde er afar vel liðinn meðal danskra kúabænda, sjálfur frá kúabúi og þekkir vel til reksturs kúabúa. 
 
Í ræðu sinni kom ráðherra inn á hve dönsk nautgriparækt væri mikilvæg fyrir land og þjóð, sérstaklega þegar horft er til fjölda atvinnutækifæra sem búgreinin skapar. Auk þess sem útflutningstekjur nautgriparæktar séu miklar. Þá svipti hann hulunni af sérstöku átaki sem ætlað er að endurbæta fjós landsins. Hefur ríkisstjórnin ákveðið að setja á fót sérstakan styrktarsjóð sem kúabændur geta sótt um endurbótastyrki árið 2018. Í þessum sjóði verða í upphafi 1,7 milljarðar íslenskra króna og bætti Esben Lunde við að með þessu væri ríkisstjórnin og þingið að sýna í verki að nautgriparækt er mikilvæg fyrir landið og hið opinbera muni gera allt sem unnt er til þess að efla búgreinina.
 
Lofaði „minna eftirliti“
 
En Esben Lunde kom með fleiri loforð en um aukna styrki, hann sagði að til stæði að einfalda allt eftirlit með matvælaframleiðslunni. Gera eftirlitsheimsóknir hins opinbera betri, einfaldari og skýrari svo bændur þurfi ekki að „fá í magann“ þegar eftirlit fer fram eins og Esben Lunde orðaði það.
 
11 málstofur
 
Að þessu sinni var dagskrá fagþingsins skipt í ellefu ólíkar málstofur og voru flutt 79 mismunandi fagleg erindi þessa tvo daga. Hafa ekki áður verið jafn mörg ólík erindi flutt á fagþinginu. Þá voru nokkur þeirra flutt í tvígang vegna mikils áhuga þátttakenda á þessum erindum enda voru mörg erindi haldin á sama tíma og því þurftu áheyrendur að velja á milli. Vegna þessa þurfti hver og einn þátttakandi að skrá sig til þátttöku og velja fyrirfram hvaða erindi hann eða hún ætlaði að hlusta á hverju sinni. Fyrir vikið var vitað fyrirfram hve stóran sal þyrfti fyrir hvert erindi sem flutt var. Þó svo að velja þurfi á milli einstakra erinda er það ekki svo að þátttakendur missi endilega af öðrum erindum. Mörg þeirra voru tekin upp auk þess sem allt fagefni  fagþingsins er sett á vefinn, svo hver og einn geti þannig glöggvað sig á hinu fjölbreytta efni sem tekið er fyrir hverju sinni.
 
Í næstu tveimur Bændablöðum verður farið í stuttu máli yfir þessar helstu málstofur en þeir sem ekki geta beðið þeirrar umfjöllunar má benda sérstaklega á að bæði útdrættir og flest erindi, þ.e. afrit af glærum fyrirlesara, má hlaða niður af heimasíðunni www.kvaegkongres.dk, en rétt er að geta þess að mest allt efni er á dönsku en þó er hluti þess á ensku.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Sviðsstjóri mjólkurgæðasviðs
Dýralækninga- og gæðadeild
SEGES í Danmörku

5 myndir:

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...