Fimm hundruð hross munu koma fram á Landsmótinu í ár í gæðingakeppni, á kynbótasýningum, í íþróttakeppni, hópreiðum og sýningum ræktunarbúa.
Fimm hundruð hross munu koma fram á Landsmótinu í ár í gæðingakeppni, á kynbótasýningum, í íþróttakeppni, hópreiðum og sýningum ræktunarbúa.
Mynd / Landsmót hestamanna
Fréttir 27. júní 2024

Léttur andi á Landsmóti

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Þúsundir manna safnast saman annað hvert ár til að fagna íslenska hestinum á Landsmóti hestamanna.

Hilda Karen Garðarsdóttir. Mynd / Aðsend

Í ár fer viðburðurinn fram á mótssvæði hestamannafélagsins Fáks í Reykjavík dagana 1.-7. júlí. Hilda Karen Garðarsdóttir, mótsstjóri viðburðarins, segir Landsmót fjöregg hestamanna.

„Á síðustu mótum hefur gestafjöldinn verið í kringum átta þúsund og við vonumst eftir svipuðum fjölda í ár. Hins vegar eru okkar áætlanir allar miðaðar við heldur hógværari tölur, enda skynsemi í því að eiga borð fyrir báru þar. Erlendir gestir eru jafnan um 15-20 prósent gesta,“ segir Hilda Karen, en hún hefur starfað á síðustu fimm Landsmótum.

„Á Landsmótum sinna bæði starfsmenn og sjálfboðaliðar mikilvægum störfum og stemningin er alveg svakalega góð því útgangspunktur allra er sá sami: að hafa gaman, vinna saman og horfa á hesta.“ Hún gerir ráð fyrir að hátt í 800 hross komi fram á Landsmóti, um 500 hross í gæðingakeppni, 170 í kynbótasýningum og 160 í íþróttakeppni, auk þess sem fleiri hross bætast við í hópreiðum og sýningum ræktunarbúa. Dagskráin verður annars með nokkuð hefðbundnu sniði en hana má nálgast á vef Landsmótsins.

Á öllum mótum síðan 1990

Sjálf hefur Hilda Karen stundað hestamennsku frá blautu barnsbeini. „Ég er alin upp á Breiðdalsvík sem er lítið sjávarþorp austur á fjörðum. Þar byrjaði ég að fara á hestbak hjá Þresti föðurbróður mínum og sótti reiðnámskeið öll sumur. Þetta endaði með því að ég varð forfallin hestakona og suðaði um hest þangað til foreldrar mínir létu undan. Þá var ég níu ára, minnir mig, og eignaðist mjög skemmtilega unga hryssu frá Hvannstóði í Borgarfirði eystra og hét hún Brana. Hestasjúka ég gerðist mjög snemma áskrifandi að Eiðfaxa og beið spennt eftir hverju tölublaði. Fljótlega varð það draumur minn að fara á Landsmót og taka þátt. Draumurinn rættist árið 1990 og fyrsta Landsmótið mitt var á Vindheimamelum það sumar. Ég hef farið á öll Landsmót síðan þá,“ segir Hilda Karen, en hún hefur á starfsferli sínum unnið í þágu íslenska hestsins, m.a. sem blaðamaður Eiðfaxa, hjá hestamannafélaginu Fáki og fyrir markaðsverkefni Íslandsstofu, Horses of Iceland.

„Fyrir okkur, hinn almenna hestamann, er mikilvægt að halda þeim létta og skemmtilega anda sem hefur einkennt mótin og hafa dagskrána þannig úr garði gerða að það sé eitthvað fyrir alla. Mótin eru líka mikilvægur markaðsgluggi fyrir ræktendur og atvinnumenn í hestamennsku og þeirra tækifæri til að kynna sig og sín hross. Það verður því aldrei of oft sagt að við þurfum að standa þétt saman til að halda utan um Landsmótin og hafa skýra stefnu sem leyfir viðburðinum að blómstra enn frekar,“ segir Hilda Karen.

Eftirminnileg augnablik

Hápunktur Landsmóts hestamanna er í huga Hildu Karenar úrslit í A-flokki gæðinga. „Þar finnst mér íslenski gæðingurinn njóta sín vel og oftar en ekki hefur maður upplifað „gæsahúðarmóment“ í þessum úrslitum. Frá því að ég byrjaði eru sérstakar upplifanir til dæmis þegar Spuni setti heimsmet á Vindheimamelum 2011 og hlaut 9,25 fyrir hæfileika. Töltsigrarnir hjá Árna Birni á Stormi frá Herríðarhóli sitja líka eftir sem sýningar sem hafa hreyft við manni og sömuleiðis þegar Glóðafeykir frá Halakoti vann B-flokkinn í Reykjavík 2012 með Einari heitnum Öder og þegar Eyrún Ýr stýrði Hrannari frá Flugumýri II til sigurs í A-flokknum á Hólum 2016.“

– Aðrar fregnir af Landsmóti á síðu 8 í nýju Bændablaði sem kom út í dag

Íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir og sektir
Fréttir 1. júlí 2024

Íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir og sektir

Í apríl og maí í ár var úrskurðað um ellefu íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir á s...

Stóraukin eldpiparræktun
Fréttir 1. júlí 2024

Stóraukin eldpiparræktun

Eldpiparræktunin í Heiðmörk í Laugarási hefur verið stóraukin í sumar.

Landsmót hestamanna 2024
Fréttir 28. júní 2024

Landsmót hestamanna 2024

Landsmót hestamanna hefst á mánudag í Víðidal í Reykjavík. Ef frammistaða hrossa...

Samvinna bænda
Fréttir 28. júní 2024

Samvinna bænda

Bændur á starfssvæði Búnaðarsambandsins í Suður-Þingeyjarsýslu sameinuðust um áb...

Vinnuhópur vegna áhrifa illviðrisins
Fréttir 27. júní 2024

Vinnuhópur vegna áhrifa illviðrisins

Matvælaráðherra mun á næstu dögum setja á stofn smærri vinnuhóp sem ætlað er að ...

Fjárfestingastuðningur þykir missa marks
Fréttir 27. júní 2024

Fjárfestingastuðningur þykir missa marks

Úthlutun fyrsta fjárfestingastuðnings í kornrækt er gagnrýnd, m.a. fyrir að drei...

Léttur andi á Landsmóti
Fréttir 27. júní 2024

Léttur andi á Landsmóti

Þúsundir manna safnast saman annað hvert ár til að fagna íslenska hestinum á Lan...

Íslenska ríkinu stefnt í ullargreiðslumálinu
Fréttir 27. júní 2024

Íslenska ríkinu stefnt í ullargreiðslumálinu

Þann 11. júní var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur mál gegn íslenska ríkinu veg...