Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Fjárfestingastuðningur þykir missa marks
Fréttir 27. júní 2024

Fjárfestingastuðningur þykir missa marks

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Úthlutun fyrsta fjárfestingastuðnings í kornrækt er gagnrýnd, m.a. fyrir að dreifa fjármagni of víða í stað þess að veita fullan styrk, 40% af heildarfjárfestingu, til eins eða tveggja sterkustu verkefnanna.

Fjárfestingastuðningi í kornrækt fyrir árið 2024 hefur nú verið úthlutað. Þrettán umsóknir bárust og var 144 milljónum króna úthlutað til átta verkefna víða um land. Samanlögð fjárfesting umsækjenda var skv. umsóknum um 893 milljónir króna. Stuðningurinn er veittur til fjárfestinga í kornþurrkun, korngeymslum og tilheyrandi tækjabúnaði.

Úthlutun ekki í samræmi við áherslur

Matvælaráðuneytið segir fjármagninu úthlutað á grundvelli forgangsröðunar þar sem m.a. hafi verið horft til afkastagetu, nýtingar endurnýjanlegrar orku, eignarhalds bænda og fyrirætlana um þjónustu við aðra bændur.

Hins vegar hefur komið fram gagnrýni á úthlutunina varðandi samlegð fleiri aðila og afkastagetu og að hluti verkefnanna sem fengu stuðning muni nýta jarðefnaeldsneyti í stað sjálfbærra orkugjafa. Þá hafi verið lagt upp úr því að þau verkefni sem fengju stuðning yrðu fullstyrkt, um 40% af heildarfjárfestingu, en það ekki orðið niðurstaðan.

Hæstu styrkina hlutu Flateyjarbúið Hornafirði, 36,8 m.kr. og Kornskemman, Laugalandi í Eyjafirði, 35,3 m.kr. Aðrir sem hlutu styrki, á bilinu 8,3–15 m.kr., voru Grís og flesk, Gunnarsholti, Búnaðarsamband S-Þing., Búnaðarfélag Eiðaþinghár, Góður biti ehf., Borgarfirði, Þreskir ehf. í Skagafirði og Gullkorn Þurrkun ehf., Snæfellsnesi.

Vonbrigði en enginn bilbugur

„Við erum að meta stöðuna en það er engan bilbug á okkur að finna,“ segir Hermann Ingi Gunnarsson, bóndi í Klauf í Eyjafirði. Hermann er einn aðila að Kornskemmunni, um 200 milljóna króna verkefnis. Stofnaðilar að samlaginu eru auk þess frá bæjunum Hrafnagili, Grænuhlíð, Svertingsstöðum og Hólshúsum.

Þeir hófu í vor framkvæmdir að grunni undir kornþurrkstöð, í trausti þess að ríkið myndi standa með verkefninu í fjárfestingastuðningi. Auk þess var búnaður pantaður fyrir stöðina um áramótin. Ekki hafi verið hægt að bíða með að fara af stað ef möguleiki ætti að vera á að þurrka korn í stöðinni næsta haust.

„Við bjuggumst við meiru, enda búið að tala um að ætti að fullfjármagna verkefni fremur en að dreifa peningunum,“ segir Hermann. „Við reiknuðum fastlega með að vera í góðum forgangshópi því við erum bæði með langstærsta verkefnið hvað varðar afköst, með endurnýjanlega orku og félag bænda stendur á bak við þetta. Menn voru hvattir til að fara í stærri verkefni til að ná kornræktinni upp á hærra plan. Og það var það sem við gerðum,“ bætir hann við.

Hermann segir að vel hafi gengið að fá fjármagn til þurrkstöðvarinnar, að því gefnu að um fullan stuðning yrði að ræða. Hann segir einhvern aukakostnað verða vegna lántaka fyrst niðurstaðan varð þessi, en alltaf séu einhverjir óvissuþættir og verkefnið muni halda áfram af fullum krafti.

Grænir orkugjafar og olía á sama báti

Haukur Marteinsson, bóndi á Grænuvöllum í Suður-Þingeyjarsýslu, segir úthlutunina hafa komið nokkuð á óvart. Búnaðarsamband S-Þing. fékk 14,1 milljón króna í stuðning en heildarstofnkostnaður verkefnisins er um 80 milljónir króna.

„Um er að ræða kornþurrkstöð, algjörlega knúna með heitu vatni og rafmagni en engri olíu,“ útskýrir Haukur. „Við fengum þennan pening og erum sáttir við það en efumst, svona við fyrstu sýn, um að farið hafi verið eftir úthlutunarreglum. Stöðvar sem keyra sig á olíu fengu sama hlutfallsstuðning og þær sem eiga að vera á heitu vatni, eða grænum orkugjöfum,“ segir hann.

Búið var að leggja mikla vinnu í að fá aðgang að heitu vatni fyrir kornþurrkstöðina sem standa á skammt sunnan við Húsavík, við Orkuhúsið þar sem eru tengingar við 120°C heitt vatn frá gróðrarstöðinni Hveravöllum.

„Við erum komin það langt með fjármögnun, frá einstaklingum, bændafélögum og fjárfestingasjóðum, að við erum í raun og veru nánast fullfjármögnuð stöð. Okkar nálgun var að við vonuðumst eftir því að ná kannski 40% stuðningi á árabilinu sem má sækja um hann,“ segir Haukur. Framkvæmdir við stöðina hefjast á næstu dögum eða vikum.

„Við erum bara brattir og framkvæmdir við kornþurrkstöð ganga vel. Tækin eru í gámum á leiðinni til landsins og verið að steypa stóra steypu í grunninum. Svo kemur húsið vonandi í kjölfarið,“ segir Hermann I. Gunnarsson í Eyjafirði. Mynd / Aðsend

Ekki í takt við ráðleggingar

Egill Gautason, Helgi Eyleifur Þorvaldsson og Hrannar Smári Hilmarsson sem skrifuðu skýrsluna Bleika akra, aðgerðaáætlun um aukna kornrækt, fyrir stjórnvöld, voru fengnir til að gefa matvælaráðuneytinu faglegt álit á umsóknunum þrettán.

Helgi, aðjunkt við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ), segir þá hafa varið tíma til að fara yfir umsóknirnar, gagnrýnt þær m.t.t. viðeigandi reglugerðar og forgangsraðað þeim. Ekki hafi allar umsóknir þótt styrkhæfar. „Úthlutunin er alls ekki í takt við ráðleggingar okkar og ekki vel rökstudd,“ segir Helgi. „Beina hefði átt stuðningnum til þeirra sem nýta sjálfbæra orkugjafa og hyggja á stærri þurrkstöðvar fyrir stærri svæði og meira magn,“ segir hann.

Í svari matvælaráðuneytisins vegna fyrirspurnar um málið kemur fram að leitað hafi verið ráðgjafar hjá sérfræðingum LbhÍ við mat á umsóknunum. „Matvælaráðuneytið lagði eftir sem áður sjálfstætt mat á umsóknirnar og tók ákvörðun um úthlutun enda bera sérfræðingar LbhÍ ekki ábyrgð á henni. Í tillögu LbhÍ var lagt til að færri fengju styrki og þar af leiðandi kæmi hærri fjárhæð í hlut hvers og eins. Miðað við mat ráðuneytisins varð niðurstaðan að 8 af 13 umsækjendum fengu styrki ...“ segir í svari ráðuneytisins.

Sækja um aftur

Samkvæmt ákvæðum reglugerðar um fjárfestingastuðning í kornrækt fá allar umsóknir sem samþykktar voru sama hlutfall af hámarksstuðningi. Hámarkið er 40% af heildarfjárfestingu og þau átta verkefni sem fengu stuðning fá 46% af því hámarki. Þar sem fjármagn til úthlutunar nægir ekki til hámarksstuðnings skerðast framlög hlutfallslega vegna allra samþykktra umsókna. Fyrri helmingur stuðningsins verður greiddur út í júní eða þegar fyrir liggur að framkvæmdir séu hafnar. Síðari hluti verður greiddur út í árslok í framhaldi af skilum á lokaskýrslu.

Fyrrgreind átta verkefni geta sótt um að nýju næstu tvö ár, eða þar til hámarkinu er náð. Verkefnum sem ekki fengu styrk núna er jafnframt heimilt að sækja um að nýju á næsta ári.

Fjárfestingastuðningur er einn þáttur aðgerðaáætlunar stjórnvalda þar sem gert er ráð fyrir að verja um tveimur milljörðum króna til átaks í kornrækt á árunum 2024–2028.

Skylt efni: kornrækt

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...