Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Metnaður í hrossaræktinni
Mynd / sá
Viðtal 28. júní 2024

Metnaður í hrossaræktinni

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Útnyrðingsstaðir á Völlum eru í um 7 km akstursfjarlægð frá Egilsstöðum. Bærinn stóð lengi í þjóðleið en er nú utan alfaraleiðar. Þar er stunduð metnaðarfull hestaræktun og ferðaþjónusta og snyrtimennska áberandi.

Með sanni má segja að fallegt sé umhorfs á Útnyrðingsstöðum. Þar er gróðursæld mikil, hestar og fé í haga og fuglalíf í móum, blár og lækir setja svip á landið og húsakostur allur, jafnt íbúðarhús sem reiðhöll, reisulegur og vel við haldið. Leitun er að jafn snyrtilegu hesthúsi og þar má finna.

Þau eru hláturmild og hafa sögur að segja, Daniela Gscheidel og Stefán Sveinsson, húsráðendur á Útnyrðingsstöðum. Þau segjast búa á heimsenda, fjarri hringiðunni.

Ferðaþjónusta frá 1830

Forfaðir Stefáns, Óli Ísleifsson, settist að á jörðinni árið 1830 og fjölskyldan hefur upp frá því búið jörðina, kynslóð fram af kynslóð, og lengstum með sauðfé.

Bærinn lá lengi í þjóðbraut, frá Skriðdal og Fljótsdal og út eftir þar sem leiðin kvíslaðist til Seyðisfjarðar og Eskifjarðar, þangað til rétt fyrir seinna stríð að kom nýr akvegur, og þá neðar í landinu og nær Lagarfljóti. Af því að Útnyrðingsstaðir voru nánast síðasti bærinn útnorður áður en haldið var á firðina var ferðafólki gjarnan veittur þar beini, og gisting ef þannig stóð á veðri. Þannig má segja að ferðaþjónusta hafi verið á Útnyrðingsstöðum í nærfellt tvær aldir.

Útnyrðingsstaðir eru um 7 km frá Egilsstöðum. Þar eru miklir landkostir og fögur náttúra. Reiðhöllin er efst til hægri á myndinni. Mynd / Aðsend

Eftir riðuna komu hestarnir

Stefán, sem fæddur er árið 1962, ólst upp á fjölmennu heimili þar sem kynslóðirnar lifðu saman. Hann fór fyrst í skóla á Eiðum en svo í Iðnskólann í Reykjavík að læra kjötiðn.

Síðan lá leiðin austur 1983 þegar hann tók við kjötvinnslunni Austmati á Reyðarfirði um skeið. Seinna flutti hann á Egilsstaði, lærði kokkinn og gerðist matreiðslumaður í Valaskjálf. Hann kom að rekstri fjárbúsins að Útnyrðingsstöðum með móður sinni árið 1987 en hafði verið viðloðandi bústörfin gegnum tíðina. Samhliða önnuðust þau einnig fjárbú frænda Stefáns í Lönguhlíð, sem þurfti að bregða búi vegna veikinda.

„Það sem gerðist næst var að það kom upp riða,“ segir Stefán alvarlegur í bragði. „Ég bjó í rauninni aðeins með fé í eitt og hálft ár. Vegna riðunnar varð að slátra öllu fénu og við tók þriggja ára tímabil þar sem ekki var kostur á að taka fé aftur. Fyrir nú utan allt hreinsunarstarfið og annað sem þessu fylgdi,“ segir hann.

Stefán kynntist á þessum tíma tamningakonu sem vann í sveitinni, þau rugluðu saman reytum og hestar urðu hinn nýi búpeningur á Útnyrðingsstöðum þótt fyrir hafi verið nokkrir reiðhestar. En nú var farið í talverða hrossaútgerð, eins og
Stefán orðar það.

Lommahestar og Gæðingatours

Tekin voru hross til tamninga á Útnyrðingsstöðum og farið að rækta. Stefán og þáverandi maki hans settu á fót hestaleigu í Hallormsstað um tíma, fóru í samstarf við Anton Antonsson hjá Ferðamiðstöð Austurlands/LTU árið 1992 og tóku í samvinnu við bændur á Tókastöðum að skipuleggja hestaferðir, ekki síst í Loðmundarfjörð. Þannig hófu Lommahestar göngu sína.

„Þetta fluggekk en innkoman á þessum tíma var ekkert sérstök; þetta var mjög gaman en líka afar mikið erfiði,“ útskýrir Stefán. „Samt tókst okkur að leggja grunninn vel og stækkuðum seinna við okkur þannig að yrði hagstæðara. Þetta var það sem ég gerði í 25 sumur.“

Hann rifjar upp að þetta hafi verið fyrir tíma samfélagsmiðlanna og öll samskipti farið fram gegnum síma og faxtæki, eða maður á mann innan lands og utan. Markaðssetningarstarfið hafi verið óhemju vinna og sumrin gríðarlega ströng þar sem oft gafst ekki einn einasti frídagur í mánaðavís.

Hann breytti Lommahestum árið 1999 í Gæðingatours og fór að bjóða upp á tvískiptar ferðir fyrir smærri hópa, annars vegar hálendisferð á Econoline í viku, þar sem hann sjálfur var bæði kokkur og leiðsögumaður, og hins vegar vikulanga hestaferð þar sem hann leiddi einnig hópinn. „Þannig kynntumst við Daniela!“ útskýrir Stefán brosandi.

Gekk inn í nýja veröld

Víkur þá sögunni til Danielu, sem kom fyrst til Íslands sumarið 2005 sem ferðamaður: einmitt í hesta- og hálendisferð með Stefáni. Hún fæddist í Stuttgart í Þýskalandi árið 1969. Eftir háskólanám í læknisfræði tók hún sérnám í húðlækningum í Frakklandi og starfaði sem sjálfstæður afleysingalæknir í Strassborg og á Elsass-svæðinu fram til ársins 2007, er hún flutti til Íslands.

Daniela hafði lengi haft hug á að koma til Íslands, bæði vegna þess að foreldrar hennar höfðu ferðast til landsins árið 1973 og ekki síður vegna áhuga hennar á hestum, þar á meðal þeim íslensku. Þegar hún sá ferð Gæðingatours auglýsta í þýska hestatímaritinu Pferd und Reiter lét hún til skarar skríða árið 2005.

Svo vildi til að dóttir Stefáns bjó í Stuttgart og hann átti jafnframt vini í Strassborg eftir að hafa unnið við tamningar í Frakklandi. Leiðir þeirra Danielu lágu því aftur saman ytra eftir að Íslandsferð hennar lauk.

Í kjölfar heimsókna til Íslands og skoðunar á starfsaðstæðum á Austurlandi fór svo að hún flutti til Íslands, í Útnyrðingsstaði, árið 2007.

Hún fékk læknisstöðu innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands, Stefán fór út og hjálpaði henni að tæma íbúð sína og pakka. „Við keyrðum svo frá Strassborg í Útnyrðingsstaði,“ skýtur hann hlæjandi að.

Fyrsta árið vann Daniela sem heimilislæknir á Egilsstöðum en eftir það við sína sérfræðigrein þar og að hluta á Akureyri um tíma. Þótti mikið happ að fá hana í læknaliðið á Austurlandi. Stefán segist dást að hugrekki hennar að skipta svo algerlega um kringumstæður í lífi sínu.

Komu böndum á annríkið

Smám saman fór ferðaþjónustan á Útnyrðingsstöðum að rúlla sjálfkrafa og þau hættu að kynna staðinn nema hjá völdum litlum ferðaskrifstofum erlendis. Þau hófu einnig að rifa seglin, vildu eiga meiri frítíma fyrir sín hugðarefni.

Þau hættu með hestaferðirnar árið 2016, drógu saman reksturinn en höfðu gistinguna opna fyrir erlenda ferðamenn frá vori og fram í vetrarbyrjun og buðu upp á stutta reiðtúra. Nú hafa þau alveg lagt af skipulagða hestaleigu og hestaferðir og leggja áherslu á bændagistinguna. Þó kemur fyrir að Stefán taki á móti hópum og sýni þeim staðinn og ræktunina.

„Í dag erum við á þeim stað að við erum að reyna að halda okkur við að gera aðeins það sem okkur langar til að gera,“ segja þau.

Stofninn undan Hettu

Á Útnyrðingsstöðum hefur sem fyrr segir verið tamningastöð um árabil þar sem Stefán og fleiri hafa tamið eigin hesta og annarra. Hrossunum hefur fækkað í um 30 en þegar flest var voru þau upp undir hundrað, þó sum í eigu annarra.

„Hrossaræktin á Útnyrðingsstöðum varð þess heiðurs aðnjótandi árið 2005 að vera útnefnd í vali um ræktunarbú ársins á landsvísu, sem var mikill áfangi í kjölfar fimmtán ára uppbyggingarstarfs,“ segir Stefán og heldur áfram: „Aftur á móti var alltaf þetta ströggl með óvissa innkomu af því að rækta hross, ala þau upp, temja og selja, eða selja ekki: maður þurfti að vera með svo mörg járn í eldinum í einu,“ segir hann.

„Eftir að Daniela kom inn í þetta með mér höfum við verið samstiga í að vera hér með hrossabú þar sem við ræktum okkar hesta,“ bætir hann við. „Okkar stofn í dag er mest út af Hettu frá Breiðumörk 2.

Við eignuðumst svo hryssu sem var heiðursverðlaunahryssan Andvör frá Breiðumörk 2, undan Andvara frá Ey og Hettu frá Breiðumörk 2. Í hrossaræktinni er stundum einn einstaklingur sem breytir öllu og lyftir upp á það plan að hrossin eru góð og eftirsótt og nafnið verður til. Andvör var slíkt hross,“ segir Stefán.

Þau rækta einnig út af Hruna frá Breiðumörk sem er undan Hettu. „Ég keypti Andvör úr ræktun vinar míns Sigurðar Jökuls Stefánssonar og föður hans og segja má að það hafi orðið okkar lán í ræktuninni,“ útskýrir hann.

Draumahestarnir

Stefán er hættur að taka hross til tamningar frá öðrum og einbeitir sér að eigin hestum. Árið 2018 byggðu þau Daniela reiðhöll við bæinn sem gjörbreyttri allri aðstöðu til tamninga.

„Við fáum eitt til þrjú folöld á ári sem þýðir að við erum alltaf með í gangi hross sem við erum að ala upp, fer svo í tamningu og svo tekur kannski þrjú ár að gera skepnuna að verðmæti,“ greina þau frá. Daniela tekur fram að hún komi ekki lengur nálægt því að temja tryppi, hún stússi í sínum tömdu hestum, hjálpi til og láti þar við sitja, enda starfi hún sem læknir og hestarnir séu áhugamál.

Hún segir alla sína hesta vera í uppáhaldi. Hún leiti einkum að góðu geðslagi og gangi. Að hrossið vilji vinna með henni og eitthvert samspil gangi upp á milli hestsins og hennar. „Og að við höfum gaman! Mesta gleði upplifi ég á hestbaki ef hesturinn gengur vel undir mér, er sjálfgengur og sjálfberandi, sem er alls ekki alltaf með hesta,“ segir Daniela.

Stefán segist tengdur einum hesti umfram aðra: 1. verðlauna- stóðhesti sínum, Steini Steinari frá Útnyrðingsstöðum, undan Andvör frá Breiðumörk 2 og Þyt frá Neðraseli.

„Þetta er svona hestur sem maður eignast bara einu sinni á ævinni. Eðlisgæðingur, mikill töltari, ljúfur og næmur. Getur lesið hugsanir manns. Hestur sem gefur þér í rauninni alltaf meira en þú biður um. Margverðlaunaður. Síðan varð ég fyrir því óláni að hann var sleginn, var alltaf í hryssum sem graðhestur, og jafnaði sig aldrei á því. Í dag er hann yndislegur reiðhestur. Ég gelti hann til að gefa honum auðveldara líf og geta verið með öðrum hestum,“ segir hann.

Heimsmeistarinn Maístjarnan

„Sá hestur sem hefur líklega auglýst okkur mest erlendis er einnig undan Andvör; Kvaran frá Útnyrðingsstöðum. Hann hefur tvisvar verið fulltrúi Sviss á heimsmeistaramóti og unnið til verðlauna á mótum ytra. Hann er alveg ótrúleg skepna. Við fengum folald á dögunum undan dóttur hans, sem við eigum, og heitir Dama. Sagan heldur áfram í þessu,“ segir Stefán.
Þau segja marga hesta erlendis frá Útnyrðingsstöðum. „Ég ræktaði hryssuna sem varð heimsmeistari árið 2004 í flokki sex vetra hryssa, Maístjörnuna frá Útnyrðingsstöðum. Lengi voru fjórir graðhestar frá okkur úti, Dreki, Kalman, Kamban og Kvaran, en nýlega þurfti að fella Dreka, sem var mjög góður hestur,“ segir Stefán enn fremur.

Hestamennska á Austurlandi

Talinu víkur að hestamennsku á Austurlandi og stöðu hennar. Innan við 10% af hrossafjölda landsins mun vera í fjórðungnum.

„Ef þú býrð úti á landi – og ekki bara úti á landi heldur á enda veraldar eins og hér, fyrir utan alla hringiðuna – þá þarftu að sætta þig við að tækifærin eru fá,“ útskýrir Stefán. „Sömuleiðis er þá ströggl að halda starfinu gangandi en fólk er að reyna að gera sitt besta. Þó hefur heilmikil jákvæð þróun orðið hér, eins og að Fossgerði við Egilsstaði byggðist upp með góðri aðstöðu. En, illu heilli, var aðstöðunni skipt á tvo staði og byggð reiðhöll inni á Völlum, sem er í sjálfu sér frábært framtak en á röngum stað. Auðvitað átti allt að vera á sama stað. Í reiðhöllinni er þó unnið gott starf, m.a. verið að byggja upp ágætt barna- og unglingastarf,“ segir hann.

Þau telja hestamennsku á svæðinu vera að komast upp úr langvarandi öldudal, vegna þess að nýtt fólk sé að koma inn. Eitthvað er líka um mótahald. „Aftur á móti sitjum við uppi með þetta að vera langt í burtu og þurfum að leggja mikið á okkur til að vera þátttakendur í því sem er að gerast í hringiðunni,“ segja þau.

„Af Austurlandi hafa komið mjög góð hross sem byggir á þeim grunni að það voru hér hestamenn á árum áður sem voru duglegir að sækja sér graðhesta, eins og Hrafn frá Holtsmúla, Ófeig gamla og fleiri. Menn voru að halda hryssum og þó að þetta væri ekki stór ræktun þá byggðist upp góður grunnur sem byggt hefur verið ofan á með því að leigja hingað úrvals graðhesta. Það koma góðir hestar af Austurlandi, alltaf inn á milli, en okkur vantar fólk hér á svæðinu til að vinna úr efniviðnum,“ segir Stefán.

Reiðhöllin á Útnyrðingsstöðum

Stefna á Landsmót

Sumaratið í ferðaþjónustunni hefur gert að verkum að Stefán hefur ekki mikið sótt hestamót í öðrum landsfjórðungum gegnum tíðina. Hann er að fara í fyrsta sinn á Landsmót síðan árið 2004 og Daniela í annað sinn. Stefán og stóðhesturinn Dagur frá Útnyrðingsstöðum, undan Hrunadótturinni Hörpu (Hruni er bróðir Andvarar frá Breiðumörk 2), hafa áunnið sér þátttökurétt á Landsmótinu í B-flokki gæðinga fyrir hestamannafélagið Blæ. Þeir voru efstir í úrtökumóti og opnu félagsmóti Freyfaxa á dögunum, í gæðingatölti með einkunnina 8,68, í öðru sæti eftir forkeppni í B-flokki með einkunnina 8,38 og í fyrsta sæti í úrslitum með einkunnina 8,68. Það ríkir því tilhlökkun á Útnyrðingsstöðum fyrir Landsmóti.

„Við förum ekkert í launkofa með að við erum mjög stolt af því sem við erum búin að gera hér; með ræktunina, byggingarnar og að hafa komið þessu öllu í það form sem nú er,“ segja þau Daniela og Stefán að endingu.

Dagur frá Útnyrðingsstöðum.

Skylt efni: Útnyrðingsstaðir

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt