Lífeyrissjóður bænda skilaði 5,4 % hreinni raunávöxtun
Á ársfundi Lífeyrissjóðs bænda sem haldinn var 3. mars voru niðurstöður ársreiknings sjóðsins fyrir 2014 kynntar. Fram kom að hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris jókst um 1,1 milljarð króna á árinu 2014 og var í lok ársins 28,4 milljarðar króna.
Verulegur vöxtur hefur orðið á hreinni eign sjóðsins frá 2008.
5,5% hrein raunávöxtun síðustu þriggja ára
Fimmta árið í röð hefur afkoma sjóðsins verið með miklum ágætum. Ávöxtun verðbréfa sjóðsins var 6,7% á árinu 2014, sem samsvarar 5,6% raunávöxtun. Hrein ávöxtun, það er þegar rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá hreinum fjármunatekjum, var 6,5% sem samsvarar 5,4% hreinni raunávöxtun á móti 5,6% 2013. Hrein raunávöxtun síðustu fimm ára er 4,7% að meðaltali á ári sem er talsvert umfram það viðmið sem stuðst er við í tryggingafræðilegri athugun lífeyrissjóðanna.
Vöxtur í sjóðfélagalánum
Heimilt verður að greiða eingöngu vexti fyrstu 4 ár lánstímans.
Skúli Bjarnason, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda.
Sjóðurinn veitir bæði verðtryggð og óverðtryggð sjóðfélagalán í samræmi við veðmörk eigna, að hámarki 30 mkr. til allt að 40 ára. Ekkert hámark er vegna lána á fyrsta veðrétti að uppfylltum öðrum skilyrðum í lánareglum sjóðsins. Heimilt er að lána félagi í eigu sjóðfélaga með sjálfskuldarábyrgð hans þar sem eignarhlutur hans í félaginu er að minnsta kosti 25%.
Af lánum veittum 2015 verður heimilt að greiða eingöngu vexti í allt að fjögur ár frá lántökudegi auk þess sem lántaki getur valið á milli láns með jöfnum greiðslum eða jöfnum afborgunum. Jafngreiðslulán og eingöngu vaxtagjalddagar í byrjun lánstímans mun auðvelda meðal annars nýliðun í landbúnaði þar sem greiðslubyrði mun lækka á fyrri hluta lánstímans.
Tryggingafræðileg staða batnar
Í lok árs 2014 voru áfallnar skuldbindingar í tryggingafræðilegri athugun 1,34% hærri en eignir sjóðsins á móti 2,46% í lok árs 2013, og heildarskuldbindingar voru 4,20% umfram heildareignir, á móti 4,96% 2013. Sjóðurinn er innan þeirra marka, sem lög kveða á um.
Stjórn Lífeyrissjóðs bænda er þannig skipuð: Skúli Bjarnason, formaður, Guðrún Lárusdóttir, Sara Lind Guðbergsdóttir, Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir og Örn Bergsson. Framkvæmdastjóri er Ólafur K. Ólafs.