Listeríusýkingar vaxandi vandamál
Tíðni listeríusýkinga í Evrópu fer vaxandi og samkvæmt greiningum á fyrstu þremur mánuðum þessa árs eru vísbendingar um að svo sé einnig hér á landi.
Greint er frá þessari stöðu í Fréttabréfi sóttvarnalæknis sem gefið var út nú í apríl. Þar kemur fram að dauðsföll af völdum matarborinna sýkinga í Evrópu árin 2018 til 2022 hafi oftast tengst listeríusýkingum. Í helmingi tilvika voru dauðsföll rekin til listeríu, alls 125 tilfelli. Salmonella kom þar næst, en 32 dauðsföll voru rakin til slíkra smita.
Gengur oftast fljótt yfir
Tekið er fram að slíkar sýkingar lýsi sér oftast sem uppköst eða niðurgangur sem gangi fljótt yfir, en geti þó leitt til alvarlega veikinda og jafnvel dauða.
Í umfjölluninni kemur fram að listería sé baktería sem finnist víða í náttúrunni, bæði í vatni og jarðvegi sem og hjá fjölda dýrategunda. Einkennandi fyrir listeríu sé að bakterían þrífst vel við kælingu og háan saltstyrk við geymslu matvæla en fjölgi sér síðan í líkama fólks. Listería valdi nánast aldrei sjúkdómi hjá fullfrísku ungu fólki, nema barnshafandi konum.
Helsta smitleiðin með matvælum
Ákveðnir þættir auki mjög líkur á sýkingu, svo sem hár aldur og ónæmisbæling. Listeríusýking geti leitt til fósturláts eða nýburadauða ef móðir smitast á meðgöngu og sýkillinn berst til fósturs í gegnum fylgjuna.
Helsta smitleið listeríu sé með matvælum sem ýmist hafa verið menguð frá upphafi eða í framleiðsluferli og þá helst mjúkir og ógerilsneyddir ostar, hrátt grænmeti eða salat, kaldreyktur eða grafinn lax og niðursneitt kjötálegg. Listeríusmit séu oft stök tilfelli en listería geti þó valdið hópsýkingum sem nái til margra landa.
Á Íslandi hafa tveir til fimm einstaklingar greinst árlega á Íslandi með listeríusmit, en á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafa þegar greinst fimm einstaklingar. Er í umfjölluninni sagt mikilvægt að lögð verði áhersla á forvarnir, vöktun og rannsóknir mögulegra hópsýkinga.
Nauðsynlegt sé að fræða áhættuhópa um tengsl listeríu við ákveðin matvæli sem borin eru fram óelduð. Mikilvægt sé að hafa í huga að jafnvel matvæli sem eru framleidd í samræmi við gæðastaðla geti valdið sýkingu hjá fólki með skert ónæmiskerfi.