LL42 ehf. fær stærstan hluta kinda- og geitakjöts
LL42 ehf., sem er að fullu í eigu Stjörnugríss hf., fær langstærstan hluta af WTO-innflutningskvóta fyrir kinda- og geitakjöt, tæp 277 þúsund kíló, en Kjarnafæði Norðlenska kemur þar á eftir með 40 þúsund kíló.
Matvælaráðuneytið tilkynnti þann 23. maí um úthlutun á WTO- tollkvótum (Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar) fyrir tímabilið 1. júlí 2023 til 30. júní 2024.
Magnið sem LL42 fær nú er svipað og Stjörnugrís fékk á síðasta ári. LL42 fær einnig stærstan hluta af svínakjötskvótanum, 34 þúsund kíló, en Kjarnafæði Norðlenska kemur þar á eftir með 30 þúsund kíló. Mata fær stærstan hluta innflutningskvóta alifuglakjöts, eða 48 þúsund kíló, en Krónan fær 11 þúsund kíló.
LL42 fær rúm 48 þúsund kílóa innflutningskvóta fyrir smjör, Innnes fær tæp þrjú þúsund kíló og Krónan tæp tvö þúsund kíló.
Stærstan hluta af innflutningskvóta fyrir ost fær Krónan, alls tæplega 41 þúsund kíló. Lífland fær 60 þúsund kílóa innflutningskvóta fyrir fuglsegg, en Krónan 16 þúsund kíló.