Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fréttir 7. apríl 2017
Löggjafinn verður strax að setja skorður við uppkaupum útlendinga á heilu byggðarlögunum á Íslandi
Höfundur: HP
Örn Bergsson, formaður Landssambands landeigenda (LLÍ), var ómyrkur í máli gagnvart mögulegum uppkaupum erlendra einstaklinga eða fyrirtækja á fjölda jarða í sveitum landsins á nýlegum aðalfundi samtakanna í Reykjavík.
Örn sagði meðal annars í skýrslu sinni til félagsmanna á fundinum:
„Kaup breska auðjöfursins á Grímsstöðum og nokkrum jörðum í Vopnafirði, þar sem hann að auki falast eftir hálfri sveit í Þistilfirði, vekur mig til umhugsunar. Er þetta það sem við viljum, erum við tilbúnir að selja landið? Heilu sveitirnar til erlendra auðjöfra? Leggja þær þess vegna í eyði? Eða að við verðum leiguliðar í eigin landi?“
Þarf að setja skorður
„Erlendir aðilar hafa gegnum árin fjárfest í jörðum og reist myndarlega hestabúgarða hér á landi. Það hefur verið bara jákvætt, ég geri enga athugasemd við það, en að auðjöfrar fari að kaupa upp heilar sveitir til að drottna yfir þeim og þá sérstaklega veiðihlunnindum hlýtur að vekja mann til umhugsunar. Ég tel að þarna þurfi að setja skorður við áður en stefnir í óefni.
Búseta og atvinna í sveitum landsins hlýtur í framtíðinni sem hingað til að byggja á því að bændur eigi ábúðarjarðir sínar. Verði sveitirnar keyptar af erlendum auðmönnum munu þær eyðast til lengri tíma litið. Fram hjá þessu verður ekki litið og þótt skiptar skoðanir kunni að vera innan okkar samtaka um hvernig skuli bregðast við má öllum vera ljóst að höfðinu verður ekki stungið í sandinn. Hjáseta er einfaldlega ekki í boði.”
Uppkaup munu eyða sveitunum
Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að uppkaup jarða í sveitum mun til lengri tíma eyða þeim. Það er almennt viðurkennt að það sé óaðskiljanlegur hluti sjálfstæðis ríkis að eignarréttur á landi og auðlindum hvíli almennt hjá þegnum þess.“
Stjórnvöld bregðist strax við hættunni
Örn sagði í samtali við Bændablaðið að loknum fundinum að afar brýnt væri að knýja stjórnvöld til að bregðast strax við hættunni á að heilu og hálfu byggðarlögin yrðu í eigu útlenskra auðmanna sem gætu farið sínu fram án þess að landsmenn gætu rönd við reist. Þetta ætti ekki einungis við um búskap og veiðiréttindin heldur væri mun meira í húfi, til að mynda vatnsréttindi, aðgangur að ferðamannastöðum, uppgræðsla og vernd náttúrunnar, svo fátt eitt væri nefnt.
Vísaði Örn meðal annars til fordæmis Dana í þessu efni, sem sett hefðu ríkar skorður við eignarhaldi útlendinga á jarðnæði í Danmörku. Engan tíma mætti missa, eins og Vopnafjarðarmálið sýndi, yfirvöld yrðu strax að taka málið föstum tökum í samráði við hlutaðeigandi aðila.