Margir mættu huga að afturljósum á farartækjum og kerrum
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Nú þegar haustar dimmir snemma á kvöldin og er gott að huga að afturljósaútbúnaði.
Mjög margir nýir bílar eru þannig útbúnir að engin afturljós eru á bílunum og þarf að kveikja ljósin þegar farið er af stað til að fá afturljósin á bílinn.
Mjög margir virðast ekki vita að það er skylda að vera með ljós allan hringinn á ökutæki til að vera löglegur í umferð. Ég hef farið víða í sumar og haust og séð ýmis farartæki í umferðinni mis vel útbúin. Þeir sem eru með kerrur í afturdragi eru of margir með innan við lágmarks afturljósabúnað á kerrunum sem getur valdið óþægindum fyrir aðra í umferðinni. Oftast er þetta ein pera eða sambandsleysi í tengingum eða perustæðum sem lítið mál er að laga.
Mikill munur á skráðum kerrum og óskráðum kerrum
Það virðast ekki allir vita að munurinn á skráðum kerrum og óskráðum kerrum er mikill, en helsti munurinn er að í uppgefnum hámarkshraða segir að bílar sem draga kerrur megi ekki fara hraðar en á 80 km hraða. Þetta á við um kerrur sem eru með númer og kallast skráðar kerrur. Sé hins vegar verið með kerru í eftirdragi sem er númerslaus og óskráð má ekki fara upp fyrir 60 km hraða. Ég hef nokkrum sinnum nefnt þetta við félaga mína sem draga fjórhjól og mótorhjól á kerrum og fæstir virðast vita þetta.
Fyrir nokkru nefndi ég þetta við lögregluþjón og sagði hann mér að stundum væri nauðsyn að horfa fram hjá þessu þar sem umferðarþungi er mikill og það væri ekki bjóðandi þungri umferð að hafa einhvern „Jónas“ með stóra lest á eftir sér á umferðarþungri götu þegar bæði bíll og kerra virðist í góðu lagi. Það væri margt annað sem í hans huga mætti frekar laga í umferðarmenningu.
Að lokum smá upprifjun um rafgeyma fyrir veturinn
Rafgeymavandamál er eitthvað sem margir kannast við, en Arnar Tryggvason, vörustjóri hjá N1, á góðar upplýsingar um meðferð rafgeyma.
Þegar tæki fer í lengri geymslu skal aftengja geymapóla, í það minnsta annan pólinn, og hlaðið geyminn á 2 mánaða fresti með viðurkenndu góðu hleðslutæki eða hafið hann tengdan við vaktara af réttri stærð.
Ekki láta rafgeyma standa á köldu gólfi innandyra, best er að hafa sama hitastig á öllum rafgeyminum.
Rafgeymi skal geyma á köldum stað til að minnka sjálfafhleðslu. Fylgjast þarf vel með vatni á neyslurafgeymum. Hafið póla vel hreina og smurða með pólafeiti og helst lakka yfir með pólalakki, það minnkar hættu á „spanskgrænu“.
Ef tæki er ítrekað rafmagnslaust skal gæta að eftirfarandi:
Er hleðsla nóg? Er tæki keyrt nógu lengi til aða vinna upp hleðslu? Er lekastraumur of mikill? (Eðlilegur lekastraumur í bíl er um 0,03 mAmp.) Muna þarf að hlaða vel rafgeymi fyrir notkun eftir langa geymslu. Hafa ber í huga að sjálfafhleðsla rafgeymis getur verið allt að 10% á mánuði.