Mauk hlaut verðlaun Ecotrophelia Ísland 2017
Ráðstefnan Þekking og færni í matvælageiranum, á vegum Matvælalandsins Íslands, stendur nú yfir á Hótel Sögu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, flutti setningarræðu og afhenti að svo búnu verðlaun í keppninni Ecotrophelia Ísland 2017, þar sem keppt er í nýsköpun í matvælaframleiðslu. Tveir hópar kepptu til úrslita og sigraði hópur með vöruna Mauk, sem er marinering framleidd úr vannýttu grænmeti.
Markmiðið með framleiðslu vörunnar er að taka á matarsóun, einu stærsta vandamáli í matvælaiðnaði. Mikið magn úr grænmetisræktun fer til spillis í dag, meðal annars hráefni sem stenst ekki útlitskröfur smásala og neytenda. Aðaluppistaða Mauks eru tómatar og gulrætur – og er það án aukaefna.
Meginmarkmið keppninnar er að stuðla að sköpun og þróun nýrra, umhverfisvænna matvara fyrir íslenskan og alþjóðlegan markað – og auka umhverfisvitund almennings og þjálfa frumkvöðlahugsun nemenda. Sigurliðið hlýtur vegleg verðlaun og rétt til að taka þátt í alþjóðlegri keppni, Ecotrophelia Europe í London í nóvember.
Mauk er í raun þykkni sem neytandinn þynnir með vökva að eigin vali. Það er hugsað sem marinering fyrir kjúkling og hvítan fisk eða sem grunnur í súpur, sósur eða pottrétti.