Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Meðalþyngd norðan heiða meiri en í fyrra
Mynd / Þorsteinn Friðriksson
Fréttir 6. október 2016

Meðalþyngd norðan heiða meiri en í fyrra

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Sláturtíð stendur nú sem hæst og gengur vel að því er fram kemur í samtölum við nokkra sem þar standa í brúnni. Meðalþyngd dilka er álíka og var í fyrra hjá SS, en fyrir norðan er hún nokkru meiri en á svipuðum tíma á liðnu hausti. Hagstætt veðurfar í vor og sumar skýrir að mestu hversu vænt fé kemur af fjalli nú í haust.
 
„Það gengur mjög vel hjá okkur,“ segir Guðmundur Svavarsson, framleiðslustjóri hjá SS, um yfirstandandi sláturtíð. Áætlanir gera ráð fyrir að slátrað verði um 111 þúsund fjár í haust. Samfelld slátrun hófst hjá SS 12. september og stendur yfir til 11. nóvember.  
 
Gott starfsfólk skilar góðu verki
 
„Við erum svo heppin að fá sama fólkið ár eftir ár, sem gengur fumlaust að sínum störfum. Þetta skilar sér með óyggjandi hætti í góðri verkun afurða og toppafköstum. Ég er verulega stoltur af þeim samheldna og metnaðarfulla hópi sem starfar hjá okkur í sláturtíðinni,“ segir Guðmundur.   
 
Meðalþyngd dilka var í lok september 16,5 kíló sem er sama þyngd og var á svipuðum tíma árið 2015.   Fitueinkunn er 6,14 í ár á móti 5,96 í fyrra og einkunn fyrir gerð var 8,71 í fyrra, en er 8,9 í ár. 
 
Mikilvægt að flytja út til Bandaríkjanna
 
Guðmundur segir að sláturhús SS sé annað af tveimur sláturhúsum í landinu sem uppfylli strangar kröfur sem gerðar eru fyrir Bandaríkjamarkað. 
 
Á dögunum var þar á ferð fulltrúi frá yfirvöldum þar í landi til að taka út innra eftirlitskerfi, búnað, aðstöðu, verklag og gæði.
 
„Það komu ekki fram athugasemdir og við munum því áfram geta flutt út til Bandaríkjanna, sem er mikilvægt og kann að auðvelda sköpun nýrra tækifæra á erfiðum tímum í kindakjötsframleiðslu,“ segir Guðmundur.
 
Sláturmarkaður SS hófst fimmtudaginn 22. september og er starfræktur í Hagkaup í Kringlunni. Gert er ráð fyrir að slátursalan standi yfir fram undir lok október. Einnig geta Sunnlendingar gengið að fersku SS-slátri í Krónunni á Selfossi. Þá býðst frosið slátur frá fyrirtækinu í kössum í verslunum um allt land.  „Við bjóðum upp á alvöru kalóneraðar vambir sem valkost með slátrinu,“ segir Guðmundur.
 
Langt síðan meðalþyngd hefur verið svo mikil
 
Gísli Garðarsson, sláturhússstjóri hjá SAH Afurða á Blönduósi, segir að sláturtíð gangi vel og fé komi vænt af fjalli. 
 
Meðalþyngd nú í ár er um 300 grömmum þyngri en var í fyrrahaust. Sláturtíð hófst 7. september síðastliðinn og lýkur um næstu mánaðamót, í lok október. Búið var að slátra ríflega 43 þúsund fjár  í lok liðinnar viku, en Gísli segir að gert sé ráð fyrir að í heild verði slátrað um 95 þúsund fjár.
„Það er oft drjúgt hjá okkur í restina, mikill lokasprettur,“ segir hann, en starfsfólk er ráðið út októbermánuð.
 
Meðalþyngd hjá SAH Afurðum á Blönduósi er um 17,2 kíló og er meiri en á svipuðum tíma í fyrrahaust.
„Meðalþyngd hjá okkur er nokkuð há, það er langt síðan við höfum séð svo háar tölur. Sumarið var sérlega gott og vorið líka sem skýrir háa meðalvigt. Við erum að sjá að margir bændur hér um slóðir eru að ná allt að 20 kílóa meðalvigt,“ segir Gísli. 
 
Lítur vel út hjá Norðlenska
 
Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri á sláturhúsi Norðlenska á Húsavík, segir að áætlað sé að slátra um 94 þúsund fjár í yfirstandandi sláturtíð sem stendur yfir fram undir mánaðamót. Í lok liðinnar viku var búið að slátra um 44 þúsund fjár.
 
„Meðalþyngdin eftir þessi 44.000 er 17,01 kg og klárt að við erum að tala um töluverða breytingu frá 2015, þar sem meðalþyngd var 15,88 kg, holdfylling er þó nokkuð betri og  aðeins meiri fita, svo þetta lítur miklu betur út,“ segir Sigmundur.
 
Hann segir að slátrun hafi gengið vel fram til þessa, „enda erum við með mjög sterkan kjarna af starfsfólki og það starfsfólk sem kemur að er í flesta staði mjög gott og til fyrirmyndar,“ segir hann og bætir við að flutningaaðilar séu öflugir og í mjög góðu samstarfi við bændur á svæðinu. 
 
„Svona verkefni sem sláturtíð er getur aldrei gengið vel nema allir þessir þættir vinni saman.“
 
Fer vel af stað hjá KS
 
Sláturtíð hefur farið vel af stað hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, KS á Sauðárkróki, en hún hófst þann 13. september og áætlað að henni ljúki 28. október næstkomandi. 
 
Edda Þórðardóttir, skrifstofustjóri hjá KS, segir að í lok liðinnar viku hafi verið búið að slátra um 43 þúsund fjár og var meðalfallþungi 17,01 kíló sem er aðeins meira en var á svipuðum tíma í fyrrahaust, þegar meðalþyngdin var 16,44 kíló. 

Skylt efni: þyngd dilka

Ársgamall kjúklingur enn í verslunum
Fréttir 16. júlí 2024

Ársgamall kjúklingur enn í verslunum

Þrátt fyrir að meira en ár er liðið frá síðustu sendingu kjúklingakjöts frá Úkra...

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn
Fréttir 16. júlí 2024

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn

Olil Amble og Bergur Jónsson á Syðri-Gegnishólum hafa náð einstökum árangri í hr...

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...