Meta möguleika á framleiðslu vindorku
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Landsvirkjun hefur sótt um stöðuleyfi til skipulags- og byggingarnefndar Húnavatnshrepps fyrir tvær stöðvar til veðurfarslegra athugana í því skyni að meta möguleika á vindorkuframleiðslu á Norðurlandi vestra.
Gert er ráð fyrir að önnur stöðin verði í landi Steinár 2–3 og hin á Auðkúluheiði. Áformað er að reisa 60 metra há möstur til mælinganna og munu þær standa yfir í um eitt ár.
Umsókn Landsvirkjunar var lögð fram til kynningar á fundi sveitarstjórnar Húnavatnshrepps. Í henni kemur fram að markmiðið með stöðvunum sé að mæla vindhraða og aðra veðurfarslega þætti. Ekki verði verulegt jarðrask af framkvæmdunum og þær verði að fullu afturkræfar.
Skipulags- og byggingarnefnd Húnavatnshrepps hefur samþykkt stöðuleyfi fyrir báðar mælistöðvarnar til eins árs. Leyfi fyrir uppsetningu veðurstöðvanna liggur fyrir frá landeigendum.