Mikill áhugi á iðnaðar- og hesthúsalóðum á Hellu
Mikill áhugi er á lausum lóðum á Hellu sem hafa verið auglýstar til umsóknar. Um er að ræða verslunar- og þjónustulóðir við Faxaflatir ásamt athafna- og iðnaðarlóðum við Sleipnisflatir.
Einnig hefur verið opnað fyrir umsóknir um lóðir í öðrum áfanga nýs hesthúsahverfis á Rangárbökkum.
Á síðasta ári var öllum lóðum í fyrri áfanga hverfisins úthlutað og styttist í að framkvæmdir hefjist þar.
„Það hefur líka verið mikill uppgangur í byggingu íbúðarhúsnæðis og eru sem stendur aðeins fjórar einbýlishúsalóðir og þrjár raðhúsalóðir lausar til úthlutunar á Hellu, en unnið er að undirbúningi fyrir næstu íbúðagötur í Ölduhverfi, auk þess sem deiliskipulag fyrir hið nýja Bjargshverfi vestan Ytri-Rangár er í vinnslu,“ segir Eiríkur Vilhelm Sigurðarson, markaðs- og kynningarfulltrúi Rangárþings ytra.