Minni innflutningur og meiri framleiðsla
Um 300 tonn af nautakjöti voru flutt inn á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2024.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar er það rúmlega 50 tonnum minna en á sama tíma í fyrra.
Um helmingur kjötsins sem flutt hefur verið inn í ár kemur frá Þýskalandi en auk þess var kjöt flutt inn frá Danmörku, Hollandi, Írlandi, Póllandi, Bandaríkjunum, Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Japan, Belgíu og Finnlandi.
Hagstofan heldur einnig utan um tölur um kjötframleiðslu en samkvæmt þeim var framleitt um 1.640 tonn af nautakjöti á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2024. Er það ívið meira en á sama tíma í fyrra þegar um 1.560 tonn af nautakjöti voru framleidd hér á landi.
Innflutningur á nautakjöti jókst um 48% milli áranna 2022 og 2023 skv. frétt Hagstofunnar og hefur aldrei verið meiri á einu ári. Þá voru flutt inn 1.344 tonn í heildina.