Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Jón Baldur Lorange, forstöðumaður Búnaðarmálaskrifstofu Matvælastofnunar Íslands.
Jón Baldur Lorange, forstöðumaður Búnaðarmálaskrifstofu Matvælastofnunar Íslands.
Fréttir 30. maí 2016

Misbrestir hafa verið á skráningu hrossa í þéttbýli

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Skráning búfjár landsmanna hefur í gegnum tíðina verið á hendi Búnaðarfélags Íslands og síðan Bændasamtaka Íslands. Með lagabreytingu sem sett var 2013 var tekin sú ákvörðun í samræmi við regluverk EES að flytja verkefni sem BÍ hafði með höndum fyrir íslenska ríkið  yfir til Matvælastofnunar Íslands (MAST). Þar á meðal var öll fjárumsýsla varðandi stuðningsgreiðslur til bænda sem og söfnun tölfræðiupplýsinga um fjölda búfjár landsmanna.
 
Frá áramótunum 2014 til 2015 var þessi starfsemi flutt í sjálfstæða deild innan BÍ sem nefnd var Búnaðarstofa. Í framhaldinu var síðan ákveðið að MAST yfirtæki þá starfsemi sem þar var innt af hendi. Um tíma olli þetta töluverðu róti, þar sem óvissa ríkti hvernig MAST hygðist framkvæma búfjártalninguna. 
 
Um síðustu áramót var svo formlega gengið frá þessari yfirfærslu. Flutti upplýsingaöflunin um set, út af skrifstofuhæð Bændasamtakanna í skrifstofur á fjórðu hæð Hótels Sögu. Er starfsemin nú rekin sem sjálfstæð eining innan MAST undir heitinu Búnaðarmálaskrifstofa. Með starfseminni fluttu þeir 4 starfsmenn sem áður unnu að þessum verkefnum hjá Bændasamtökunum. Þótti það rökrétt, þar sem þeir bjuggu yfir áratuga reynslu af þessum verkefnum og óhætt er að fullyrða að hvergi í landinu er til meiri þekking á þessu sviði. 
 
Skráningin gerð skilvirkari
 
Jón Baldur Lorange var ráðinn yfirmaður skrifstofunnar, en hann var áður yfirmaður tölvudeildar Bændasamtakanna og stýrði yfirfærslunni og mótun Búnaðarstofu og síðan Búnaðarmálaskrifstofu. Segir Jón Baldur að nú sé unnið að því að gera alla skráningu búfjár skilvirkari  þannig að hún gagnist betur inn í hagfræðitölur landsins. Það er líka nauðsynlegt vegna þess að gögnin eru grunnurinn að því að hægt sé að útdeila stuðningsgreiðslum til bænda. 
 
„Það var haldinn samhæfingar­fundur með dýralæknum og öðrum starfsmönnum MAST nú í febrúar. Þar var farið yfir hagtölusöfnunina og þá gagnagrunna sem við erum að nota varðandi lifandi dýr og hafa verið reknir af Bændasamtökum Íslands. Þar er um að ræða svokallaðar hjarðbækur.“ 
 
Samtenging margra gagnagrunna
 
„Við þurfum að tengja saman hagtölur sem fást úr skýrslugerð sem bændur skila á haustin og hjarðbækurnar þar sem allir bændur eiga að skár lifandi dýr sem eru í þeirra umsjá. Fellur sú skylda undir reglugerð um merkingu búfjár. 
 
Þá er vinna í gangi á vegum MAST í samvinnu við sláturhúsin að tryggja að sláturgögn skili sér inn í hjarðbækurnar. Það varðar afdrif gripa. Sem dæmi um nautgriparæktina, þá verða sláturgögnin látin gilda varðandi það þegar gripir eru felldir út úr kerfinu. Verið er að setja upp vöktunarkerfi til að tryggja að villurnar sem alltaf geta komið upp verði leiðréttar. Þar getur verið um að ræða mistök við álestur á merkingum og fleira. Það er mjög mikilvægt út af lyfjaleyfum og lyfjaskráningu sem verið er að auka eftirlit með. Þannig þarf t.d. að tryggja það að gripir sem eru í sláturbanni vegna lyfjagjafar séu ekki leiddir til slátrunar. Þannig á allt ferlið að verða traustara enda mikilvægt þar sem það er grundvöllur að hagtölusöfnun og útdeilingu fjármagns í stuðningskerfi landbúnaðarins.“
 
Rekjanleiki mikilvægur
 
Jón Baldur segir þetta líka skipta miklu máli gagnvart EES-samning, varðandi upprunamerkingar og  rekjanleika matvæla. Þar eiga að liggja fyrir gögn um gripi allt frá fæðingu þar til þeim er slátrað. Það er svo í valdi sláturhússins að miðla upplýsingum um upprunann áfram til neytenda sé þess óskað. Þannig eigi tæknilega að vera hægt að láta rekjanleikanúmer fylgja hverjum einasta kjötbita þannig að kaupandi geti slegið inn því númeri og fengið upp alla sögu á viðkomandi grip frá fæðingu. Þar með talið sjúkrasögu og lyfjagjöf. 
 
Þeir sem trassa að skila gögnum verða rukkaðir af MAST um eftirlitsgjald
 
-Eru einhver viðurlög ef menn passa ekki upp á að skráning búfjár sé rétt?
 
„Það er alltaf best að fá menn til að gera þetta með jákvæðri hvatningu. Kerfið er byggt þannig upp að bændur eru með skýrsluhaldið og hjarðbókina vegna eigin hagsmuna. Þá eiga allir að skila haustskýrslum fyrir búfé sem er eru síðan nýttar í hagtölur landsins. Þetta er grundvöllur að stuðningsgreiðslum til bænda og því afar mikilvægt að þessi gögn séu rétt. Þeir sem skila ekki þessum gögnum fyrir 20. nóvember ár hvert geta búist við aukakostnaði. 
 
Þá eiga eftirlitsmenn MAST að fara á viðkomandi bæi og telja búféð á kostnað búfjáreigenda. Nú verður farið í að herða slíkt eftirlit. Með Búnaðarmálaskrifstofunni er MAST komið með tæki í hendur til að halda miklu betur utan um talnagögn um búfé landsmanna en verið hefur.  
 
Í nýjum búvörusamningum á að taka upp gripagreiðslur í sauðfjárrækt. Því skiptir miklu máli, bæði fyrir ríkið og bændur, að allar tölur um fé séu mjög áreiðanlegar. Þó er rétt að taka fram að í 99,9% tilvika eru þessi gögn bænda í mjög góðu lagi. Það er ekkert vandamál hjá þeim sem taka þátt í skýrsluhaldi RML.
Vandinn liggur einkum hjá svokölluðum „hobbýbændum“ og varðandi hrossaeign í þéttbýlinu. Auðvitað geta svo alltaf leynst einn og einn svartur sauður í stórum hópi bænda eins og í öðrum atvinnugreinum. Ef hins vegar ekki er tekið á slíkum málum verður það á kostnað allra hinna.“
 
Engin skráning – enginn stuðningur
 
Þá segir Jón Baldur nauðsynlegt að þeir sem eingöngu eru í hjarðbókar­kerfinu skili ársfjórðungslega upplýsingum inn í kerfið. Ef þeir geri það ekki detti þeir sjálfkrafa út úr kerfinu og þar með út úr stuðningsgreiðslukerfinu líka. Búnaðarmálaskrifstofa MAST mun fylgjast vel með þessu. 
 
Unnið að endurbótum við skráningu hrossa
 
Á næsta ári þegar haustskýrslum verður skilað á að vera komin í gagnið tenging þannig að bændur geta sótt með sjálfvirkum hætti tölurnar úr sínum hjarðbókum. Þetta er ekki ósvipað því sem þekkist með skattaskýrslurnar. Í nautgriparæktinni heitir kerfið Huppa, WorldFengur í hrossaræktinni og Fjárvís í sauðfjárræktinni. Með þessari sjálfvirku yfirfærslu verður búið að tryggja meiri áreiðanleika talnanna en nú er unnt, þar sem alltaf geta orðið mistök við tvískráningu gagna.“
 
Misbrestir á skráningu hrossa í þéttbýli
 
Jón Baldur segir að varðandi hrossin þá hafi alla tíð verið erfitt að eiga við gagnasöfnun um fjölda hrossa. Þótt bændur hafi í langflestum tilvikum verið með öll gögn í lagi í hrossaræktinni eins og öðrum greinum, þá hafi ákveðinn vandi fylgt hrossaeign einstaklinga í þéttbýli. Því hafi tölfræðin ekki alltaf verið nákvæm í þeirri grein. 
 
„Við, Búnaðarmálaskrifstofan hjá MAST og sérgreinadýralæknir hrossa hjá MAST, erum búin að funda með ábyrgðarmönnum hrossaræktar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML). Við höfum verið að fara yfir það hvernig við getum sem  best treyst þennan talnagrunn hrossa í landinu þannig að hægt sé að ganga að því vísu að verið sé að vinna með áreiðanlegar tölur um lifandi hross.“ 
 
Talnasöfnun breytt og voreftirlit lagt niður
 
„Veikleikinn felst í því að voreftirlit var lagt af með lagabreytingu á Alþingi og dýraeftirlitsmenn MAST komu í stað forðagæslumanna sem voru á vegum sveitarfélaga og  Bændasamtakanna. Síðan hafa talnaupplýsingar ekki verið að skila sér frá hrossaræktendum í þéttbýlinu með ásættanlegum hætti. Misbrestur hefur verið á að þau gögn skili sér inn í haustskýrslu. 
 
Ýmislegt kemur þar til, eins og kunnáttuleysi hrossaeigenda og fleira. Þótt þetta hafi verið auglýst mikið í fyrra, þá hafa þessi gögn ekki skilað sér eins og vera ber frá hrossaeigendum í þéttbýlinu.
 
Þess vegna er leiðin sú  að efla skýrsluhaldið í hrossarækt inn í WorldFeng. Þá eiga allir umráðamenn hrossa að skila skýrslum inn í hjarðbókina og inn í WorldFeng. Þegar þetta hefur verið gert geta umráðamenn valið með sjálfvirkum hætti að skila gögnum úr WorldFeng inn í haustskýrslu í Bústofni.“ 
 
Flækjustigið er hærra í hrossaræktinni
 
„Við skráningu hrossa í dag eru uppi meiri vandamál en í öðrum búgreinum og ákveðin óvissa í kerfinu. Það skapast út af því að hrossin geta verið í hagagöngu þegar á að skrá þau. Þá geta verið margir eigendur að einstökum hrossum og jafnvel um lögaðila að ræða (fyrirtæki eða félög) og því getur verið óvissa uppi um hver á að skila inn upplýsingunum um fjölda hrossa. Þegar svo er þarf að tryggja að einn ákveðinn aðili skili inn upplýsingunum um hvert hross en ekki margir.“
 
Misvísandi tölur milli kerfa
 
Ákveðið misræmi hefur verið í tölum um fjölda hrossa á liðnum árum. Þegar voreftirlit BÍ var í gangi sýndu tölur að hross landsmanna voru um 78 þúsund talsins. Í WorldFeng eru talin vera í kringum 98 þúsund lifandi hross í landinu. Þar er nær örugglega um oftalningu að ræða sem skýrist af því að ekki hefur verið passað upp á að skrá hross sem hafa verið felld út úr kerfinu. Þá er líka til nýlegt dæmi um að tölur um tugi þúsunda hrossa hafi ekki skilað sér. Samkvæmt nýjustu gögnum MAST eru lifandi hross á Íslandi talin vera rúmlega 67 þúsund. 
 
„Ég vonast til að við skil á gögnum í haust verðum við komin með áreiðanlegri tölur en verið hefur um raunverulegan fjölda lifandi hrossa í landinu,“ segir Jón Baldur Lorange. 

4 myndir:

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...