Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Mjólkurframleiðsla Norðurlandanna stóð í stað á milli ára
Mynd / HKr.
Fréttir 24. september 2020

Mjólkurframleiðsla Norðurlandanna stóð í stað á milli ára

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Á hverju ári taka NMSM samtökin, sem eru samstarfsvettvangur Norðurlandanna um ýmis málefni sem snerta mjólkurframleiðslu, saman margvíslegar áhugaverðar upplýsingar sem tengjast þróun mjólkurframleiðslu Norðurlandanna. Helstu upplýsingar má sjá hér í meðfylgjandi töflu en þar kemur m.a. fram að mjólkurframleiðslan stóð í stað á milli ára en alls nam heildarframleiðsla Norðurlandanna 12,2 milljörðum kílóa í fyrra.

Þess má geta að bæði á Íslandi og í Noregi eru takmarkanir í gildi varðandi heildarframleiðslu en í hinum löndunum þremur er bændum frjálst að framleiða mjólk en þó hefur heildarmagnið staðið nokkuð í stað undanfarin ár sem bendir til ákveðins jafnvægis á hinum frjálsa markaði. Líklegt má telja að jarðnæði hafi hér töluvert að segja um heildarframleiðsluna enda hefur þróunin verið önnur víða í heiminum þar sem bændur hafa getað bætt við sig landi og hefur heildarframleiðsla mjólkur í heiminum öllum aukist jafnt og þétt undanfarin ár.

Segja má að þrátt fyrir að heildarframleiðslan standi í stað á milli ára þá hafi orðið mikil hagræðing í búgreininni á milli áranna 2018 og 2019 en í fyrsta skipti í sögunni er heildarfjöldi kúabúa á Norðurlöndunum kominn niður fyrir 20 þúsund og voru þau í árslok 2019 19.637 talsins.

Mjaltaþjónabúum fjölgar áfram

Rétt eins og hér á landi þá hafa kúabændur á hinum Norðurlöndunum verið duglegir að taka mjaltaþjóna í notkun í stað hefðbundinnar mjaltatækni en þróunin hefur þó verið ólík á milli landanna (sjá bæði mynd og töflu). Gögnin sýna að þar sem meðalbústærð er að jafnaði minni, þ.e. hér á landi, í Noregi og í Finnlandi, hefur mjaltaþjónabúum fjölgað nokkuð ört en þessi þróun er mun hægari í Svíþjóð og í Danmörku hefur þróunin verið önnur í allmörg ár. Lengi vel var hlutfall mjaltaþjónabúa í Danmörku hæst á öllum Norðurlöndunum en með vaxandi meðalbústærð í Danmörku hefur mjaltaþjónabúunum fækkað jafnt og þétt.

Eins og áður segir má skýra þennan mun á búskaparþróuninni innan Norðurlandanna af meðalbústærðinni þar sem afköst hvers mjaltaþjóns takmarkast við um það bil 65 kýr og því hentar tæknin síður stærri búum sem eru í jafnri stækkun. Með aukinni samkeppni á milli framleiðenda á mjaltaþjónum og stöðugri þróun á tækninni sem slíkri má þó ætla að kostnaðurinn muni halda áfram að lækka á komandi árum og það gæti vissulega haft áhrif á þessa þróun á stærri búunum.

Þróun útbreiðslu mjaltaþjónabúa á Norðurlöndunum frá 1998.

Hlutfallslega mest mjaltaþjónamjólk í Noregi

Undanfarin ár hefur hlutfall mjólkur frá mjaltaþjónabúum verið mest á Íslandi en norsku búin eru nú komin með hærra hlutfall og alls var árið 2019 57,2% mjólkurinnar í Noregi frá mjaltaþjónabúum. Íslensku búin eru skammt undan með 54,5% mjólkurinnar og þar á eftir koma sænsk bú með 42% mjólkurinnar. Hlutfall mjaltaþjónamjólkur er lægst í Danmörku þar sem 23,5% mjólkurinnar kemur frá mjaltaþjónabúum.

Starfandi mjaltaþjónabú, talin sem starfandi bú 31. desember 2019, fjölgaði á árinu úr 5.187 í árs-lok 2018 í 5.565 um síðustu áramót eða alls um 378 bú. Árið þar á undan fjölgaði þeim álíka mikið. Í árslokin voru mjaltaþjónar á rúmlega fjórða hverju kúabúi Norðurlandanna (28,3%) en hæsta hlutfallið var hér á landi en um síðustu áramót var þessi mjaltatækni á 39,9% af kúabúum landsins.

Rúmlega 9 þúsund mjaltaþjónar!

Eins og hér að framan greinir þá fjölgaði mjaltaþjónabúunum um 378 bú en mjaltaþjónunum sjálfum fjölgaði mun meira eða um 819. Það er nærri því tvöfalt meiri aukning en frá fyrra ári. Það er því ljóst að margir bændur eru að bæta mjaltaþjónum við bú sín og í árslok síðasta árs var fjöldi mjaltaþjóna í notkun kominn í alls 9.046. Flesta mjaltaþjóna hefur undanfarna áratugi verið að finna í Danmörku en nú hafa bæði Noregur og Svíþjóð tekið fram úr, með annars vegar  2.558 og hins vegar 2.184 mjaltaþjóna. Í Danmörku voru um áramótin síðustu 2.170 mjaltaþjónar í notkun.

Mismunandi nýting mjaltaþjónanna

NMSM hefur einnig reiknað nú, í fyrsta skipti síðan samtökin fóru að taka saman gögn varðandi þróun mjaltaþjónatækninnar á Norðurlöndum, hvernig bændum gengur að nýta mjaltaþjónatæknina. Þetta er gert með því að bera saman fjölda mjaltaþjóna í hverju landi og innvegið mjólkurmagn búanna en þess má geta að afurðasemi kúnna hefur hér mikið að segja, mjaltahraði þeirra sem og hve mörgum kúm er haldið að hverjum mjaltaþjóni. Heimsmetið í þessum efnum eru rúmlega milljón kíló frá einum mjaltaþjóni sem er með öðrum orðum tæknileg framleiðslu-geta þessarar tækni. Þegar þetta er reiknað út kemur í ljós að dönsku búin ná að fá flest kíló mjólkur frá hverjum mjaltaþjóni eða 607 tonn að jafnaði á ári og eiga því tölvert inni í nýtingu á tækninni. Þar á eftir koma sænsku búin með 520 tonn, þá þeir finnsku með 517 tonn, þá þau íslensku með um 314 tonn og þau norsku eru svo skammt undan með 311 tonn að meðaltali frá hverjum mjaltaþjóni.

Ísland og Danmörk juku mjólkurframleiðsluna

Líkt og undanfarin ár þá er danska mjólkurframleiðslan lang-umsvifamest innan Norðurlandanna en dönsku kúabúin framleiddu í fyrra 5,6 milljarða kílóa eða um 46% allrar mjólkur þessara fimm landa og eru dönsku búin að bæta hlutfallslega við sig ár frá ári en danska ársframleiðslan jókst um 121 milljón kíló á árinu 2019.

Miðað við þróunina undanfarin ár, að því gefnu að hún haldi áfram á sömu braut, má búast við því að dönsk mjólkurframleiðsla verði komin með helming allrar framleiðslu Norðurlandanna árið 2024. Næststærsta framleiðsluland mjólkur á Norðurlöndunum er svo Svíþjóð með 22%. Það sem vekur þó athygli er að heildarframleiðsla mjólkur jókst einungis í Danmörku og á Íslandi en samdráttur varð í hinum löndunum þremur og nam hann alls 126 milljón kílóum.

Stærstu kúabúin í Danmörku

Meðalbústærðin á Norðurlöndunum er nú komin í 69,3 árskýr og er það aukning um 4% frá fyrra ári. Meðalbústærðin jókst á öllum Norðurlöndunum og í fyrsta skipti er nú meðalbúið í Danmörku komið yfir 200 árskýr sem er meira en helmingi stærra meðalbú en er í Svíþjóð sem er þó með næststærstu búin að jafnaði eða 94 árskýr. Þriðju stærstu bú Norðurlandanna er svo að finna hér á landi með um 48 árskýr, þá kemur Finnland með 45 árskýr og norsku búin reka svo lestina með ekki nema 28 árskýr að jafnaði.

Meðalbúið með 621 þúsund kíló

Ársframleiðsla norrænu kúabúanna er auðvitað nátengd bústærðinni en að jafnaði lagði hvert bú inn 621 þúsund kíló á síðasta ári sem er aukning um 33 þúsund kíló á einu ári. Eins og undanfarin ár bera dönsku búin höfuð og herðar yfir önnur bú á Norðurlöndunum og raunar í allri Evrópu en þau voru að jafnaði að leggja inn 2,0 milljónir kílóa sem er rúmlega tífalt meira mjólkurmagn en norsku búin voru að leggja inn að meðaltali, en þau eru að framleiða langminnsta mjólkurmagnið á Norðurlöndum og meðalinnlögnin þar var ekki nema 192 þúsund kíló árið 2019.

Kúnum fækkaði

Samhliða fækkun kúabúa hefur kúnum líka fækkað en afurðasemin hefur þó aukist á sama tíma. Þannig fór fjöldi þeirra úr 1.382 þúsund kúm í árslok árið 2018 í 1.361 þúsund kýr í árslok 2019 sem er þó ekki nema fækkun um 1,6% á milli ára.

Meðalkýrin að skila 8.966 kg í afurðastöð

Þegar horft er til afurðasemi kúnna á milli landanna er staðan nokkuð ólík eftir því hvaða land á í hlut enda hefur þar áhrif bæði kúakynið sem er notað við framleiðsluna og það umhverfi sem kúabúin starfa við.

Þegar meðalafurðir eru metnar er oft notast við skýrsluhaldsafurðir, þ.e. uppgefnar afurðir búa sem taka þátt í skýrsluhaldi og þá er ekki tekið tillit til heimanota á mjólk eða mögulegra áfalla vegna sjúkdómameðhöndlunar svo dæmi sé tekið. Í samanburði NMSN er hinsvegar notast við upplýsingar um alla innvegna mjólk til afurðastöðvanna í löndunum og svo heildarfjölda skráðra mjólkurkúa í löndunum. Þegar þetta er reiknað þannig út kemur í ljós að sem fyrr eru mestar afurðir að finna í Danmörku, þar sem hver kýr er að skila að jafnaði 9.913 kílói í afurðastöð og þar á eftir koma finnsku kýrnar með 9.016 kíló og þá þær sænsku 8.852 kíló. Norsku kýrnar eru þær fjórðu afurðamestu með 6.828 kíló sem er lægri innvegin mjólk á hverja kú en árið á undan og þær íslensku eiga enn nokkuð í land með að ná hinum með 5.950 kíló að jafnaði.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...