Mjólkursamsalan skiptir yfir í rafmagnsbíla
Mjólkursamsalan hefur skipt út bílaflota sölufólks síns fyrir fjóra rafmagnsbíla og fimm tengiltvinnbíla.
Mjólkursamsalan tilkynnti um þetta í dag 1. júní, á alþjóðlegum degi mjólkur. „Sölufólk okkar er mikið á ferðinni og því er ánægjulegt að geta fært okkur yfir í grænni akstur,“ er haft eftir Hermanni Erlingssyni, aðstoðarsölustjóra hjá Mjólkursamsölunni.
„Sölufólk okkar ferðast víðsvegar um landið allt árið um kring og þar sem víða skortir enn innviði notum við tengiltvinnbílana í lengri ferðir. Með vonandi bættum innviðum á næstu misserum getum við svo skipt alfarið yfir í rafmagnsbíla. Sölufólk Mjólkursamsölunnar keyrir um 180 þúsund kílómetra á ári svo það munar um minna þegar kemur að kolefnislosun,“ bætir Hermann við.
Þriðja stærsta flutningsfyrirtæki landsins
Framkvæmdir hafa verið í gangi við höfuðstöðvar fyrirtækisins í Reykjavík þar sem nú er búið að koma upp átta hleðslustöðvum. Þá er einnig tengiltvinnbíll notaður frá starfsstöðinni á Akureyri.
Mjólkursamsalan hefur einnig verið að leita leiða til orkuskipta fyrir stærri bifreiðir fyrirtækisins en MS er þriðja stærsta flutningsfyrirtæki landsins. Í haust var í því tilliti tekinn í notkun flutningabíll sem gengur á metani og er nýttur til útkeyrslu á höfuðborgarsvæðinu.