Monsanto hafnar 62 milljarða dollara tilboði
Þýska lyfja- og efnafyrirtækið Bayer bauð fyrir nokkrum dögum 62 milljarða bandaríkjadali í reiðufé eða jafngildi 7,749 milljarða íslenskra króna í fræ- og efnaframleiðslufyrirtækið Monsanto.
Monsanto hafnaði boðinu og segir það of lágt. Í yfirlýsingu frá Monsanto segir að þrátt fyrir að tilboðið hljómi hátt sé það langt undir raunverulegu markaðsvirði fyrirtækisins. Í yfirlýsingunni segir einnig að fyrirtækið sé enn falt fáist viðeigandi verð fyrir það.
Ef af sameiningu Bayer og Monsanto verður, verður Bayer stærsta lyfja-, fræ- og efnaframleiðslu og sölufyrirtæki í heimi. Fyrirtækið yrði til dæmis ráðandi á markaði fyrir getnaðarvarnapilluna, og með yfirtökunni yrði til stærsta fyrirtæki í heimi sem býður erfðabreytt fræ og varnarefni í landbúnaði. Fyrr á þessu ári gerði Monsanto tilboð í svissneska lyfja- og fræframleiðandann Syngenta en missti af kaupunum þar sem China National Chemical bauð betur. Í framhaldi af þeim kaupum sameinuðust svo efnafyrirtækin Dow og DuPunt í eina sæng.
Fyrirtækin sem um ræðir ráða um 90% af allri fræsölu í heiminum og eiga réttinn á nánast öllu erfðabreyttu á markaði í dag, maís, soja og bómull.
Monsanto framleiðir einnig Round Up, sem er mest selda plöntueitur í heimi.