Mun tvöfalda framleiðsluna og rúmlega það
Verið er að taka í notkun þessa dagana nýju 5.600 fermetra gróðurhúsbyggingarnar hjá Friðheimum í Reykholti. Byrjað var að færa plöntur inn í uppeldishúsið í fyrri viku, en það er einn hluti af fjórþættri byggingu sem auk uppeldishúss samanstendur af vörumóttöku, pökkun og gróðurhúsi.
Knútur Rafn Ármann hefur rekur Friðheima ásamt eiginkonunni, Helenu Hermundardóttur, og fjölskyldu frá 1995. Þau fagna því 25 ára afmæli á þessu ári.
Knútur segir að byrjað verði að færa plöntur inn í gróðurhúsið sjálft í þessari viku, en það er tvískipt.
Munu tvöfalda framleiðsluna og rúmlega það
„Með þessari byggingu munum við tvöfalda okkar framleiðslu og rúmlega það. Magnið ræðst af því hvernig við röðum í það plöntum fyrir smátómata og stóra tómata.
Ef við miðum við framleiðslu á hefðbundnum tómötum, þá væri hægt að framleiða þarna um 100 kg á fermetra á ári. Ræktunarrýmin í þessari byggingu eru um 4.600 fermetrar, þannig að framleiðsla á slíkum tómötum gæti verið nærri 500 tonn á ári.“
Knútur segir að ræktun Piccolo-tómata, eins og þau séu mikið að framleiða, skili kannski um þriðjungi í vigt á við hefðbundna tómata.
„Við munum bæta við ræktunina hjá okkur á Piccolotómötunum og einnig í hefðbundnu tómötunum,“ segir Knútur.
Starfsfólk Friðheima hefur verið í óða önn við að gera nýja gróðurhúsið klárt. Hér er rafvirkinn, Helgi Guðmundsson í Hrosshaga, að tengja dælukerfi hússins sem er mjög öflugt.
Leggja áherslu á bragðgæði
Friðheimar voru útnefndir framúrskarandi fyrirtæki 2020 af Creditinfo og hafa verið útnefndir fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri árin 2017, 2018, 2019 og 2020. Friðheimabændur leggja áherslu á að rækta tómata með mestu bragðgæðum sem völ er á og í góðri sátt við náttúruna. Tómatarnir eru ræktaðir allt árið um kring með fullkominni tækni á vistvænan hátt þar sem græn orka, tært vökvunarvatn og lífrænar varnir gera tómatana ferska og heilsusamlega.
Eitt helsta stolt Friðheima er ræktun á Piccolotómötum sem þykja afar bragðgóðir.
Þess má geta að umbúðirnar eru ekki úr plasti heldur náttúruvænu efni sem brotnar auðveldlega niður í náttúrunni.