Nautgripir hafa aldrei verið fleiri en nú
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Samkvæmt nýjum búfjártölum Búnaðarstofu Matvælastofnunar 2016–2017, þá telst búfé landsmanna nú vera 665.386 gripir auk 358.979 alifugla. Það er samtals 1.024.365 ferfætlingar og fiðurfénaður.
Af þessum fjölda eru 80.024 nautgripir á 645 búum. Þar af eru 26.347 þúsund mjólkurkýr og 2.176 holdakýr.
Sauðfé á fóðrum telst vera 475.893 skepnur á 2.481 býli. Þá eru 67.186 hross í landinu sem skráð eru á 2.470 bú. Svín eru 3.510 talsins á 19 búum og þá er aðeins verið að tala um fullorðnar gyltur og gelti, en ekki grísi. Síðan eru 38.773 loðdýr, þ.e. fullorðnir högnar og læður á 39 loðdýrabúum. Að auki teljast alifuglar landsmanna vera 358.979 á 469 búum og þá eru 1.188 geitur í landinu.
Nautgripabændur hafa verið að svara ákalli um aukna mjólkur- og nautakjötsframleiðslu á liðnum árum, m.a vegna aukins ferðamannastraums. Eftir fækkun í stofninum í þrjú ár í röð frá 2010 hófst kröftug fjölgun gripa á árinu 2013. Það er þó ekki hrist fram úr erminni að auka mjólk- og kjötframleiðsluna. Meðgöngutími hjá íslenskum kúm er að meðaltali í kringum 286 dagar. Kvíga fer ekki að mjólka fyrr en eftir fyrsta burð, eða um tveggja til tveggja og hálfs árs aldur. Þá tekur 18 til 24 mánuði að ala naut upp í sláturstærð.
Kúastofninn aldrei stærri
Eigi að síður hefur verið að fjölga nokkuð ört í stofninum síðan 2013 sem hefur þá þýtt um leið að færri gripir hafa farið til slátrunar. Þannig fjölgaði úr 68.776 gripum 2013 í 80.024 2016, eða um 11.248 gripi. Hafa nautgripir aldrei verið eins margir í landinu og nú.
4,2 íbúar um hvern nautgrip
Sem dæmi þá voru þeir 52.998 árið 1981. Á árinu 1981 voru 4,3 íbúar um hvern nautgrip, en þá voru íbúar landsins samtals 229.327. Þann 1. janúar 2017, þegar landsmenn voru orðnir 338.349, voru 4,2 íbúar um hvern grip. Þannig að miðað við íbúaþróun stendur nautgripastofninn hlutfallslega nánast í stað en þó með örlítilli stækkun.
Gríðarleg fækkun sauðfjár
Töluvert aðra sögu er að segja af sauðfjárstofni landsmanna. Á árinu 1981 voru 794.097 vetrarfóðraðar kindur í landinu, eða um 3,5 sauðkindur á hvern einasta landsmann. Á árinu 2016 var sauðfjárstofninn kominn í 475.893 skepnur, eða um 1,4 kindur á hvern íbúa. Ljóst er að sauðfé hefur því fækkað gríðarlega á undanförnum áratugum eða um hartnær helming að höfðatölu fjárins og enn meira sem hlutfall af íbúafjölda. Frá 1995 hefur sauðfé aldrei farið yfir 500 þúsund vetrarfóðraðar skepnur.
Eftir nokkurn stöðugleika í sauðfjárstofninum frá 2003 til 2008 fór stofninn nokkuð að vaxa á nýjan leik. Var hann kominn í 487 þúsund fjár árið 2014. Þá varð fækkun um 14.540 fjár til 2015. Vetrarfóðruðu sauðfé fjölgaði síðan aðeins á milli áranna 2015 og 2016, eða úr 472.461 í 475.893. Það er fjölgun upp á 3.432 skepnur sem virðist samt vera meira en markaðurinn tekur við.
Rætt um niðurskurðarþörf
Vegna birgðasöfnunar á dilkakjöti í vetur hefur verið rætt um þörf á töluverðum niðurskurði. Binda menn þó vonir við að yfirstandandi átak í markaðssókn kunni að bæta stöðuna umtalsvert.
Talið er að umtalsverðir sóknarmöguleikar geti m.a. falist í að kynna dilkakjöt betur fyrir erlendum ferðamönnum og virðist þar hafa náðst töluverður árangur á síðustu mánuðum. Fjöldi veitingastaða er nú farinn að leggja aukna áherslu á margvíslega matreitt íslenskt dilkakjöt á sínum matseðlum.