Norðlenska hækkar skilaverð til sauðfjárbænda um 15%
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Norðlenska hefur gefið út verðskrá fyrir sauðfé fyrir árið 2019. Verðskráin er talsvert breytt frá fyrra ári hvað varðar verðhlutföll gerðar og fituflokka.
„Við erum að reyna að færa verðskrána nær því sem okkur finnst rétt, þannig að greitt sé besta verðið fyrir þá gerðar- og fituflokka sem við fáum mest verðmæti fyrir á markaði og nýtast best til vinnslu,“ segir Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska. Sé miðað við rauninnlegg Norðlenska árið 2018 felur nýja verðskráin í sér um 15% hækkun á meðalverði til bænda frá fyrra ári, að sögn Ágústs Torfa.
Í tilkynningu frá Norðlenska segir m.a. að nánara fyrirkomulag sláturtíðar, heimtöku og flutninga verði kynnt þegar nær dregur sláturtíð.