Nýliðun í stjórn
Axel Sæland var kjörinn formaður Búgreinadeildar garðyrkjunnar og Óskar Kristinsson endurkosinn í stjórn. Þrír nýir stjórnarmeðlimir voru kjörnir, þau Eygló Björk Ólafsdóttir, Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir og Óli Björn Finnsson. Helga Ragna Pálsdóttir, Sigrún Pálsdóttir og Þórhallur Bjarnason létu af stjórnarsetu.
Á fundinum var lýst ánægju yfir því að garðyrkja sé á dagskrá í stjórnarsáttmála og þeim meðvindi sem greinin er að fá, að sögn Guðrúnar Birnu Brynjarsdóttur, starfsmanns Bændasamtakanna, sem leiddi fundinn og fór yfir stefnumörkun BÍ. Helgi Jóhannesson, ráðunautur frá RML, kom og fór yfir hagtölusöfnun í garðyrkju og talaði einnig um skýrsluhald í forritinu Jörð.
Tvær tillögur fóru frá deild garðyrkjubænda til Búnaðarþings, önnur varðar gjaldskrá félagsmanna og hin nýliðunarmál. Nokkur umfjöllun skapaðist um nýliðunarstyrki í landbúnaði og þá stigagjöf er varðar menntun umsækjenda, þar sem starfsmenntanám mun ekki vera metið sem skyldi að mati fundarmanna.
Þá fjölluðu garðyrkjubændur um íslensku fánaröndina sem notuð er á íslenskar garðyrkjuvörur. Lögð var til tillaga þess efnis að notkun hennar miðist eingöngu að þeim sem eru fullgildir félagar Bændasamtaka Íslands.
Búnaðarþingsfulltrúar deildarinnar verða þeir Axel Sæland, Gunnar Þorgeirsson, Óskar Kristinsson og Óli Björn Finnsson