Nýtt á Íslandi – Burðarboði á halann á kúnum
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
„Við erum mjög ánægð með nýja tækið og aðrir bændur sem við þekkjum til og hafa fengið boðann til að gera tilraunir á honum með sínar kýr, hann svínvirkar og léttir okkur og bændum mikið störfin,“ segir Margrét Hrund Arnarsdóttir, fjósameistari í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Fyrirtækið Landstólpi, sem er í eigu fjölskyldunnar á bænum, hefur sett á markað Burðarboða fyrir kýr. Boðinn er settur á halann á kúnni og lætur vita þegar kýrin er að fara að bera, ca 2–3 klst fyrir burð með því að senda eiganda SMS. Tækið nemur aukna virkni hjá kúnni og sendir fyrstu skilaboð þegar aukin virkni er búin að vera í klukkustund. Klukkutíma síðar sendir það svo önnur skilaboð um stöðuga tveggja klukkustunda virkni.
„Þessi nýjung kemur til með að létta bændum allt eftirlit með burði og tryggja þar með velferð gripanna betur,“ bætir Margrét Hrund við. Nýja tækið kostar 43.000 krónur.