Nýtt félagskerfi Bændasamtaka Íslands samþykkt á Búnaðarþingi
Rétt í þessu, eftir hádegishlé á Búnaðarþingi 2021, var samþykkt að breyta félagskerfi landbúnaðarins með þeim hætti að Bændasamtök Íslands (BÍ) og búgreinafélögin sameinast undir merkjum BÍ. Málið var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Búnaðarsamböndin verða aðildarfélög BÍ með skilgreind hlutverk og BÍ byggð upp af deildum búgreina. Þrjú aðildarfélög; VOR, Beint frá býli og Samtök ungra bænda, munu starfa þvert á búgreinar.
Markmiðið með breytingunum er á ná aukinni skilvirkni í félagskerfinu og eflingu hagsmunagæslu í landbúnaði.
Hver búgrein mun halda Búgreinaþing, en á Búnaðarþingi verða stærri mál tekin fyrir sem snerta heildarhagsmuni þar sem 63 fulltrúar sitja. Fulltrúar búgreina verða 54, félög þvert á búgreinar kjósa einn fulltrúa og búnaðarsambönd eiga samtals sex fulltrúa – einn frá hverju svæði.
Í greinargerð með málinu er því beint til þeirra aðildarfélaga sem hyggjast sameinast Bændasamtökum Íslands að gera nauðsynlegar ráðstafanir og breytingar á sínum samþykktum svo sameiningin megi ganga í gegn um mitt ár 2021. Stefnt er að því að nýjar samþykktir BÍ, þingsköp Búnaðarþings og Búgreinaþings verði lagt fyrir til samþykktar á aukabúnaðarþingi 10. júní 2021.